- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Magakveisa herjar á heimsmeistarana

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari heimsmeistara Dana. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Magakveisa herjar í herbúðum heimsmeistara Danmerkur og virðist ganga illa að kveða hana niður eftir því sem Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari segir. Leikmennirnir Mikkel Hansen, Johan Hansen gátu ekki tekið þátt í leiknum við Japan í gærkvöld auk sjúkraþjálfarans Anja Greve.


Fleiri úr leikmannahópnum hafa verið í óþægilega miklum kynnum við postulínið undangengna daga. Má þar nefna Mads Mensah, Morten Olsen, Lasse Andersson auk nokkurra til viðbótar úr liði starfsmanna og í fararstjórn. Mensah og Hansen eru herbergisfélagar.


Jacobsen segir erfitt við þessu að gera. Menn verði bara að fá tíma til að jafna sig. Ekki sé möguleiki á að fá auka herbergi á hótelinu til þess að eingangra þá magaveiku. Hótelið er fullbókað.


Því miður þá eru magakveisur síður en svo óalgengar meðal fólks sem sækir Egyptaland heim. Forðast verður allt hrámeti eins og heitan eldinn og aðeins má nota kranavatn til baða. Allt drykkjarvatn verður að fá af flöskum og einnig til að skola mun og tannbursta eftir notkun.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við handbolta.is í gær að fram til þessa hafi íslenski hópurinn í Kaíró sloppið við magakveisur enda hafi menn gætt sérstaklega vel að sér. Margbrýnt hafi verið fyrir leikmönnum og starfsmönnum að gæta vel að því sem þeir láti ofan í sig, bæði í föstu og fljótandi formi. Læknir íslenska liðsins hefur verið eins og grár köttur í eldhúsum þeirra tveggja hótela sem liðið hefur gist á til þess að gæta að hreinlæti eins og kostur er.


Danir hafa ekki búið á sömu hótelum og íslenska landsliðið í Kaíró.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -