- Auglýsing -
- Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði sitt fyrsta HM mark í gær í sigurleiknum á Argentínu. Markið skoraði Einar Þorsteinn eftir hraðaupphlaup og kom Íslandi 10 mörkum yfir, 27:17. Einar Þorsteinn var með á HM í fyrsta sinn.
- Ýmir Örn Gíslason náði í gær þeim áfanga að leika sinn 100. landsleik þegar Ísland vann Argentínu, 30:21, í Zagreb Arena í síðasta leik landsliðsins á HM að þessu sinni.
- Óðinn Þór Ríkharðsson lék sinn 50. landsleik í gær og var um leið markahæstur með sjö mörk. Alls skoraði hann 16 mörk á HM að þessu sinni og er kominn með 34 mörk á HM í 14 leikjum.
- Viktor Gísli Hallgrímsson skoraði sitt annað mark fyrir íslenska landsliðið í sigurleiknum á Argentínu í gær. Viktor Gísli kom íslenska landsliðinu yfir, 5:4, með marki sínu á 12. mínútu.
- Stiven Tobar Valencia lék í gær sinn fyrsta leik á heimsmeistaramóti og varð 157. handknattleiksmaðurinn sem klæðist landsliðstreyju Íslands á heimsmeistaramóti. Stiven er fimmti HM-nýliðinn í íslenska landsliðinu sem tók þátt í HM að þessu sinni.
- Af leikmönnunum 157 hafa 120 þeirra skorað a.m.k. eitt mark. Einar Þorsteinn Ólafsson var sá 120. til að skora í gær eins og kemur fram efst í þessari upptalningu.
- Íslenska landsliðið hafnaði í 9. sæti af 32 liðum á heimsmeistaramótinu en liðunum í sæti níu til 24 hefur verið raðað niður eftir vinningshlutfalli. Næst á eftir Íslandi er Noregur, þá kemur Sviss og þar á eftir Holland sem er í 12. sæti sem er sama sæti og íslenska landsliðið hafnaði í fyrir tveimur árum.
- Auglýsing -