- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM U18 ára kvenna: „Spennandi og krefjandi riðill“

U18 ára landsliðið sem lék tvo vináttuleiki við Dani í Danmörku í október. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska kvennalandsliðið, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, hafnaði í riðli með Svartfellingum, Svíum og Alsírbúum, þegar dregið var fyrir stundu í riðla fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Skopje í Norður Makedóníu frá 30. júlí til 10. ágúst. Alls voru lið 32 þjóða dregin í átta riðla.


Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 30. júlí á móti Svíum. Daginn eftir mætir íslenska landsliðið Svartfellingum áður en einn frídagur verður fyrir lokaleikinn í riðlinum gegn Alsír.

Allir leikirnir í riðli Íslands verða leiknir í Jane Sandanski, keppnishöll Vardar Skopje. Frábær keppnishöll sem hýsir m.a. heimaleiki Vardar í Meistaradeild Evrópu. Höllin stendur á glæsilegum stað við Vardar fljótið sem sker Skopje í tvo hluta.

Tvö lið fara áfram

Tvö lið fara áfram úr hverjum riðli í 16 liða úrslit. Þau sem hafna í þriðja og fjórða sæti hvers riðils leika í forsetabikarnum um sæti sautján til og með 32.


„Riðillinn er bæði spennandi og krefjandi,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U18 ára landsliðsins sem sat sem límdur yfir skjánum meðan dregið var í riðla.

Riðlaskiptingin:
A-riðill: Svartfjallaland, Svíþjóð, Alsír, Ísland.
B-riðill: Íran, Norður Makedónía, Usbekistan, Senegal.
C-riðill: Danmörk Portúgal, Austurríki, Færeyjar.
D-riðill: Króatía, Kasakstan, Egyptaland, Indland.
E-riðill: Rúmenía, Holland, Gínea, Slóvenía.
F-riðill: Þýskaland, Sviss, Slóvakía, Suður Kórea.
G-riðill: Noregur, Tékkland, Brasilía, Úrúgvæ.
H-riðill: Ungverjaland, Frakkland, Argentína, Spánn.

Höfum á að skipa sterku liði

„Svartfjallaland hefur á að skipa mjög sterku liði og sama með Svíana. Alsír er meira óskrifað blað. Við höfum hins vegar líka á að skipa sterku liði og það verður gaman að sjá hvar við stöndum gegn þessum sterku þjóðum,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Svartfellingar höfnuðu í áttunda sæti á Evrópumeistaramótinu í þessum aldursflokki á síðasta sumri og Svíar hrepptu 12. sæti.


Íslenska liðið hefur undirbúning strax um helgina með leikjum í Kórnum við færeyska U18 ára landsliðið. Leikirnir verða á laugardag og á sunnudag og hefst klukkan 16.30. Færeyska landsliðið tekur einnig þátt í heimsmeistaramótinu í sumar.


Leikjadagskrá – hægt er smella á myndina til að fá hana stærri.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -