Fyrsta æfing íslenska landsliðsins í handknattleik karla á þessu ári hófst klukkan 17 í dag í Víkinni eftir að allir þeir sem komnir voru til landsins í morgun, 17 að tölu auk þjálfara og starfsmanna, höfðu fengið neikvæða niðurstöðu úr skimun fyrir kórónuveirunni. Þrír leikmenn voru væntanlegir til landsins í dag. Þeir fá ekki að hitta hópinn fyrr en niðurstaða úr skimun þeirra frá flugvellinum liggur fyrir sem væntanlega verður í kvöld.
Landsliðið dvelur annars í svokallaðari vinnustaðasóttkví á hóteli ásamt þjálfurum og öðru starfsfólki.
Á síðustu klukkustund, rétt áður en æfingin hófst, tilkynnti HSÍ að Aron Pálmarsson væri úr leik vegna meiðsla og verði hvorki með í leikjunum við Portúgal sem framundan eru á miðvikudaginn og á sunnudaginn eftir rúma viku, né á HM í Egyptalandi sem hefst 13. janúar en íslenska liðið leikur sinn fyrsta leik á mótinu daginn eftir.