- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Úrslit dagsins og staðan – sjö lið örugg í milliriðla

Halldór Jóhann Sigfússon heldur ekki áfram með landslið Barein. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Annarri umferð á HM í handknattleik lauk í kvöld og nú eru línur farnar að skýrast nokkuð vel. Þjóðverjar undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og Ungverjar eru komnir áfram úr A-riðli. Miðað við ástandið í herbúðum Grænhöfðeyinga verður að teljast sennilegt að Úrúgvæ verði þriðja liðið áfram nema að Eyjólfur hressist. Leikmenn landsliðs Grænhöfðaeyja gátu a.m.k. ekki mætt til leiks í dag gegn Þýskalandi vegna þess hversu fáir leikmenn eru heilir heilsu. Það væri mikið ævintýri fyrir Úrúgvæmenn að komast í milliriðil en þetta er í fyrsta sinn sem landslið þjóðarinnar tekur þátt í HM. Liðið æfði eingöngu utandyra síðustu vikurnar fyrir HM vegna þess að íþróttahús landsins eru lokuð vegna kórónuveirunnar.


Spánverjar mörðu sigur á Pólverjum í hörkuleik í gærkvöldi í B-riðli og eiga sæti í milliriðli víst enda komnir með þrjú stig og mæta Túnisbúum á þriðjudag. Túnis er með eitt stig og getur farið áfram þótt Pólland og Brasilía standi betur að vígi með tvö stig hvor þjóð.


Í C-riðli eru Katar öruggt um sæti í milliriðli eftir tvo sigurleiki og eins fara Króatar áfram en þeir lentu í nokkru basli með Angólamenn í dag og náðu ekki að slíta sér frá þeim fyrr en nokkuð var liðið á síðari hálfleik. Japan, lið Dags Sigurðssonar, er með eitt stig og mætir stigalausum Angólamönnum á þriðjudag.


Heimsmeistararnir Danir og Argentínumenn geta farið að búa sig undir leiki í milliriðlum enda lið beggja þjóða komin með fjögur stig. Bareinar, undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar eru án stiga eftir naumt tap í dag fyrir Argentínu í leik þar sem Argentínumenn skoruðu þrjú síðustu mörkin og unnu, 24:21. Barein mætir Kongó á þriðjudaginn í hreinum úrslitaleik um sæti í millriðli.


Í millriðli mætast þrjú efstu lið A-riðils þremur efstu liðum B-riðils og síðan koll af kolli. Stig úr riðlakeppninni í innbyrðis leikjum er flutt með yfir í milliriðil.


A-riðill:
Grænhöfðaeyjar – Þýskaland 0:10
Ungverjaland – Úrúgvæ 44:18 (16:8)

B-riðill:
Túnis – Brasilía 32:32 (20:16)
Pólland – Spánn 26:27 (11:14)


C-riðill:
Katar – Japan 31:29 (15:16)
Angóla – Króatía 20:28 (11:12)


D-riðill:
Argentína – Barein 24:21 (12:10)
Kongó – Danmörk 19:39 (10:23)

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -