- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Væntingar og vonbrigði

HM-farar Íslands 1964 veifa til áhorfenda eftir kveðjuleik í íþróttahúsinu á Keflavíkurflugvelli skömmu áður en lagt var af stað til Tékkóslóvakíu.
- Auglýsing -

Handbolti.is heldur nú áfram að rifja upp þátttöku íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á heimsmeistaramótum frá því fyrst var tekið þátt árið 1958. Nú er komin röðin að HM 1964 sem fram fór í Tékkóslóvakíu í mars. Mikil eftirvænting ríkti meðal landsmanna fyrir mótinu eftir sögulegan árangur liðsins á HM 1961 í Vestur-Þýskalandi þar sem niðurstaðan varð sjötta sæti.

Fyrri upprifjanir er hægt að nálgast neðst í þessari grein.

Bílaraðir á Keflavíkurveginum

Heimsmeistarakeppnin fór fram í Tékkóslóvakíu árið 1964. Eftir frábæran árangur þremur árum áður voru talsverðar vonir gerðar til íslenska liðsins. Ekki dró það úr vonum manna að íslenska landsliðið kjöldró Bandaríkjamenn í tveimur vináttulandsleikjum í íþróttahúsi bandaríska hersins skömmu áður en lagt var af stað. Slíkur var áhuginn á leikjunum að langar bílaraðir mynduðust á gamla Keflavíkurveginum þegar almenningur flykktist suður eftir til þess að berja „strákana okkar“ augum. Færri komust að en vildu meðal áhorfenda.

Karl G. Benediktsson stýrði íslenska landsliðinu í undirbúningnum og í keppninni en hann hafði náð framúrskarandi árangri sem þjálfari Fram og innleitt nýjungar í íþróttina hér á landi með kerfisbundnum leik og fléttum sem áður voru óþekktar.

Ísland var í riðli með Egyptum, Svíum og Ungverjum í riðlakeppni EM. Íslenska liðið vann öruggan sigur, 16:8, á Egyptum í fyrsta leik og lagði síðan Svía, 12:10, í annarri umferð. Þá fór stórskyttan Ingólfur Óskarsson á kostum og átti öðrum fremur þátt í glæsilegum sigri ásamt Hjalta Einarssyni markverði sem átti einnig stórleik.

Góðar líkur voru því á að íslenska landsliðið kæmist í milliriðlakeppnina en sú von rann út í sandinn með níu marka tapi fyrir Ungverjum í lokaleik riðlakeppninnar, 21:12. Ungverjar skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og voru tveimur mörkum yfir að honum loknum, 9:7. Þeir gerðu síðan sex mörk gegn engu íslensku á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks og þar með voru úrslitin ráðin.

Fyrir leikinn var íslenska liðið með jafnmörg stig og Ungverjar og Svíar og mátti tapa með allt að fjögurra marka mun fyrir Ungverjum en komast samt áfram. Íslenska liðið stóðst ekki álagið og féll úr keppni með óhagstæðari markatölu en Ungverjar sem héldu áfram í milliriðla ásamt Svíum.

Rúmenar unnu Svía í úrslitaleik og Tékkar lögðu Þjóðverja í viðureign um þriðja sætið. Ungverjar hrepptu áttunda og síðasta sætið af þeim átta liðum sem komust í milliriðla, töpuðu lokaleiknum, 23:14, fyrir Dönum. Íslendingar lögðu hinsvegar silfurlið Svía í riðlakeppninni, 12:10, eins og greint er frá hér að ofan.

Landslið Íslands á HM 1958 
Nafn, leikir - mörk
Guðmundur Gústafsson (m) 3-0
Hjalti Einarsson (m) 3-0
Ragnar Jónsson 3-7
Gunnlaugur Hjálmarsson 3-11
Örn Hallsteinsson 3-5
Sigurður Einarsson 3-3
Hörður Kristinsson 3-5
Karl Jóhannsson 3-1
Einar Sigurðsson 3-0
Ingólfur Óskarsson 2-6
Guðjón Jónsson 3-2
Birgir Björnsson 1-0
Landsliðsþjálfari:
Karl G. Benediktsson

Ekki með á HM 1967

Ísland komst ekki á HM 1967. Árið áður tók það þátt í undankeppni og var í riðli með Dönum og Pólverjum og rak lestina eftir að hafa tapað tvisvar fyrir Dönum og einu sinni fyrir Póllandi.

Tékkar urðu heimsmeistarar árið eftir þegar mótið fór fram í Svíþjóð. Þeir lögðu Dani, 14:11, í úrslitaleik. Ríkjandi heimsmeistarar, Rúmenar, máttu gera sér þriðja sætið að góðu.

Áður hefur verið rifjuð þátttaka Íslands á HM 1958 og 1961 sem hægt er að nálgast með því að smella á ártölin hér að framan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -