Ágúst Guðmundsson varð markahæstur leikmanna íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti 19 ára landsliða sem lauk í Kaíró í gær. Ágúst skoraði 51 mark í átta leikjum, 21 markanna skoraði HK-ingurinn úr vítaköstum. Hann hafnaði í 9. sæti á lista yfir markahæstu menn mótsins.
Af Íslendingunum var Dagur Árni Heimisson næstur á eftir Ágústi með 39 mörk, ekkert úr vítakasti.
Varð sjöundi
Ágúst varð í sjöunda sæti yfir þá leikmenn mótsins sem áttu flestar stoðsendingar. Alls gaf Ágúst 28 stoðsendingar á mótinu. Dagur Árni varð einnig næstur á eftir Ágústi á stoðsendingalistanum af leikmönnum íslenska liðsins með 22 stoðsendingar. Garðar Ingi Sindrason og Marel Baldvinsson átti 18 stoðsendingar hvor. Fimmti varð Elís Þór Aðalsteinsson með átta stoðsendingar.
Besta að skotnýtingin
Stefán Magni Hjartarson var með langbestu skotnýtinguna af leikmönnum íslenska liðsins í samantekt mótshaldara yfir þá leikmenn sem átti a.m.k. 16 markskot í leikjum mótsins. Stefán Magni skoraði 25 mörk í 30 markskotum og varð í 12. sæti við þriðja mann.
Hinn 17 ára gamli Slóveni, Aljuš Anžič, varð markakóngur HM með 67 mörk. Landi hans Mai Marguč varð annar með 65 mörk.
Þegar mörk og stoðsendingar hafa verið lagðar saman trónir Svíinn Nikola Roganovic í efsta sæti með samanlagt 95 mörk og stoðsendingar. Anžič markakóngur varð annar með 85 mörk og stoðsendingar.
Sigurjón Bragi Atlason varði 23,6% markskota sem hann fékk á sig og Jens Sigurðarson 23,4%.
Mörk Íslands á HM: Ágúst Guðmundsson 51, Dagur Árni Heimisson 39, Stefán Magni Hjartarson 25, Bessi Teitsson 24, Jens Bragi Bergþórsson 23, Garðar Ingi Sindrason 21, Elís Þór Aðalsteinsson 18, Andri Erlingsson 17, Marel Baldvinsson 16, Daníel Montoro 8, Dagur Leó Fannarsson 7, Haukur Guðmundsson 6, Sigurjón Bragi Atlason 6, Ingvar Dagur Gunnarsson 5, Hrafn Þorbjarnarson 1.