- Auglýsing -

HM19-’25: Markmiðið er að ná inn í átta liða úrslit

- Auglýsing -


„Stefnan er að sjálfsögðu sú að vinna riðilinn þótt við vitum lítið sem ekkert um andstæðinga okkar. Langtímamarkmiðið er að ná inn í átta liða úrslit,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik karla við handbolta.is í gær. Landsliðið fór af landi brott í morgun áleiðis til Kaíró í Egyptalandi þar sem heimsmeistaramót 19 ára landsliða hefst á miðvikudaginn.

Íslenska landsliðið verður í riðli með landsliðum Gíneu, Sádi Arabíu og Brasilíu. Fyrsta viðureignin verður gegn Gíneu á miðvikudagsmorgun klukkan 9.45.

Leikirnir í D-riðli HM:
6. ágúst: Ísland - Gínea, kl. 9.45.
7. ágúst: Ísland - Sádi Arabía, kl. 9.45.
9. ágúst: Ísland - Brasilía, kl. 12.
- Tvö efstu lið hvers riðils taka sæti í 16-liða úrslitum. Tvö neðstu liðin leika um forsetabikarinn, sæti 17 til 32.
- Íslenska landsliðið mætir liðum úr C-riðli í milliriðlum. Í C-riðli eiga sæti Alsír, Króatía, Serbía og Spánn.
- HM lýkur sunnudaginn 17. ágúst.

Fara áfram með tvö stig

„Við förum bara í alla leikina þrjá í riðlakeppninni af fullum þunga með það að markmiði að vinna þá alla. Til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitum er ljóst að við verðum að fara áfram með tvö stig inn í milliriðil þar sem okkar munu bíða erfiðari andstæðingar. Strákarnir hafa sýnt að þeim eru allir vegir færir og ég hef mikla trú á þeim,“ sagði Heimir ákveðinn í bragði.

Silfur í Svíþjóð

Nítján ára landsliðið hafnaði í öðru sæti á Opna Evrópumótinu sem lauk í byrjun júlí. Þar tókst liðinu að spila sig vel saman og draga lærdóm af því sem betur mátti fara. Heimir segir að síðustu vikur hafi meginþungi undirbúningsins farið í að treysta varnarleikinn.

„Við gáfum strákunum nokkra daga frí frá æfingum eftir að við komum heim af Opna Evrópumótinu í Svíþjóð í byrjun júlí. Eftir að við hófum æfingar aftur höfum við haldið mjög góðum dampi og æft grimmt,“ sagði Heimir.

Áhersla á varnarleikinn

„Við gerum okkur góðar vonir að vinna okkar síðustu vikur varðandi varnarleikinn skili sér þegar á hólminn verður komið,“ segir Heimir og bætir við að tveir æfingaleikir í síðustu viku gegn Fram og FH hafi gengið vel og ekkert óvænt komið upp.

Þrír leikmenn liðsins, markverðirnir Jens Sigurðarson og Sigurjón Bragi Atlason, og línumaðurinn Jens Bragi Bergþórsson hafa glímt við lítilsháttar meiðsli síðustu daga. Heimir segir ekkert alvarlegt sé á ferðinni. Þeir hafi jafnað sig að mestu og fari með til Kaíró í dag. Millilent verður í Brussel.

HM-hópur 19 ára landsliðs karla

Markverðir:
Jens Sigurðarson, Val.
Sigurjón Bragi Atlason, Aftureldingu.
Aðrir leikmenn:
Dagur Árni Heimisson, KA.
Ágúst Guðmundsson, HK.
Bessi Teitsson, Gróttu.
Elís Þór Aðalsteinsson, ÍBV.
Stefán Magni Hjartarson, Aftureldingu.
Haukur Guðmundsson, Aftureldingu.
Garðar Ingi Sindrason, FH.
Daníel Montoro, Val.
Andri Erlingsson, ÍBV.
Dagur Leó Fannarsson, Val.
Jens Bragi Bergþórsson, KA.
Ingvar Dagur Gunnarsson, FH.
Marel Baldvinsson, Fram.
Hrafn Þorbjarnarson, Val.

Þjálfarar:
Heimir Ríkarðsson.
Maksim Akbachev.
Markmannsþjálfari:
Roland Eradze.
Liðsstjóri:
Magnús Kári Jónsson.
Sjúkraþjálfari:
Andrés Kristjánsson.

Yngri landslið – fréttasíða.

Léttir eftir mjög erfiðan tíma í kjölfar höfuðhöggs og heilahristings

Egyptalandsfararnir hafa verið valdir

Dagur Árni bestur á Opna EM – Jens og Bessi í úrvalsliðinu

Töpuðu úrslitaleiknum með minnsta mun

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -