Íslenska landsliðið leikur um 5. sætið á heimsmeistaramóti 19 ára landsliða karla í handknattleik í Kaíró á sunnudaginn gegn heimaliðinu, Egyptalandi. Íslenska liðið lagði Ungverja í spennuleik í dag, 37:36, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 17:17. Viðureign Íslands og Egyptalands á sunnudaginn hefst klukkan 11.45 og má búast við allt að 20 þúsund áhorfendum.
Ungverjar voru sterkari framan af fyrri hálfleik í dag en þegar kom fram undir miðjan hálfleik komst íslenska liðið yfir, 10:9, og hafði frumkvæðið, eitt til tvö mörk, fram á síðustu mínútu hálfleiksins þegar ungverska liðinu tókst að nýta sér yfirtölu og jafna metin, 17:17.
Tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks voru ungversk. Íslensku piltarnir voru fljótir að snúa leiknum sér í hag. Afar góður varnarleikur sló vopnin úr höndum Ungverja hvað eftir annað sem skilaði sér í hraðaupphlaupum og mörkum. Ísland náði fimm marka forskoti, 30:25, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Ungverjar bitu frá sér og minnkuðu muninn í eitt mark, 30:29. Um skeið var leikurinn í járnum uns íslensku piltarnir náðu öðrum góðum spretti sem skilaði fjögurra marka forskoti, 35:31, sem lagði grunninn að sigrinum þótt Ungverjar legðu allt í sölurnar undir lokin.
Sigurinn var afar sætur fyrir íslensku piltana sem töpuðu fyrir Ungverjum í bronsleiknum á EM 18 ára fyrir ári eftir framlengingu.
Mörk Íslands: Marel Baldvinsson 8, Ágúst Guðmundsson 6, Bessi Teitsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 5, Dagur Árni Heimisson 3, Elvar Þór Aðalsteinsson 3, Daníel Montoro 2, Garðar Ingi Sindrason 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Sigurjón Bragi Atlason 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 5, 18% – Sigurjón Bragi Atlason 1, 8%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.