„Við erum fyrst og fremst sáttir við að hafa komið okkur vel í gang á mótinu strax í fyrsta leik,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla við handbolta.is eftir öruggan sigur í upphafsleiknum á heimsmeistaramótinu í Kaíró í Egyptalandi. Íslensku piltarnir lögðu landslið Gíneu, 41:19.
HM19-’25: Gíneumenn voru engin fyrirstaða
„Við vorum lengi í gang en þegar hjólin fóru að snúast var aldrei neinn vafi. Sigurinn var öruggur og okkur tókst að rúlla öllum mannskapnum í leiknum, koma öllum í gang. Breiddin í hópnum er góð. Þetta var bara klárað mjög vel, til þess að gera,“ sagði Heimir sem viðurkenndi að vita lítið sem ekkert um lið Gíneu.
Svipað verður upp á teningunum á morgun þegar landsliðið mætir Sádi Arabíu. „Við vitum ekkert um lið Sádi Arabíu en ætlum okkur að fylgjast með leik þeirra við Brasilíu síðar í dag,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla.
Vel fer um alla
Fyrir utan óþægindin vegna farangurs landsliðs sem sat eftir í Brussel á leiðinni til Kaíró fer vel um leikmenn og starfsmenn á stóru og nýlegu hóteli í úthverfi Kaíró. Um sama hótel er að ræða og A-landslið karla og íslenskir fjölmiðlamenn dvöldu á fyrri hluta heimsmeistaramóts A-landsliða karla í janúar 2021.
HM19-’25: Ljóst að við þolum ekki marga daga