- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Stelpurnar eru staðráðnar í að ná góðum leik

Inga Dís Jóhannsdótir og Thelma Melsteð Björgvinsdóttir í leik við Hollendinga. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Við höfum nýtt þann stutta tíma sem er á milli leikjanna til að safna kröftum. Stelpurnar eru einbeittar og staðráðnar í að ná fram góðri frammistöðu gegn Frökkum í dag,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is á tólfta tímanum í dag. Hann leit þá rétt upp úr undirbúningi fyrir sjöunda leik íslenska landsliðsins á tíu dögum á heimsmeistaramótinu sem verður við Frakka í Jane Sandanski-íþróttahöll Vardar í Skopje í dag. Flautað verður til leiks klukkan 16.15.


Sigurliðið í leiknum keppir um 5. sætið á HM á miðvikudaginn en tapliðið leikur um sjöunda sætið. Í hinni viðureigninni í krossspilinu mætast Egyptar og Svíar.
Eins og kom fram hjá Ágústi hér að framan þá er enga uppgjöf að finna hjá leikmönnum íslenska landsliðsins þrátt fyrir að vonbrigði hafi ríkt eftir naumt tap fyrir Hollendingum í átta liða úrslitum í gærkvöld, 27:26, í spennutrylli.

Alltaf krefjandi að mæta Frökkum

„Frakkar eru með afar öflugt lið með hávöxnum og líkamlega sterkum leikmönnum sem leika meðal annars mjög sterka sex núll vörn,“ sagði Ágúst Þór um mótherja dagsins.


„Það fer ekki á milli mála að þegar maður mætir Frökkum á stórmóti þá er það alltaf krefjandi viðureign en að sama skapi spennandi fyrir okkur að máta okkur við eina bestu handboltaþjóð heims,“ sagði Ágúst Þór.

Stemningin er mjög góð

Allir leikmenn fyrir utan Elísu Elísdóttur taka þátt í leiknum í dag. „Andinn og stemningin er mjög góð í liðinu og mikil eftirvænting ríkir fyrir að mæta aftur til leiks,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik.


Handbolti.is verður með textalýsingu frá leik Íslands og Frakklands í dag eins og frá öðrum leikjum íslenska landsliðsins á HM. Eins verður hlekk á streymi frá leiknum að finna á forsíðu handbolta.is skömmu fyrir leik. Viðureignin við Frakka hefst klukkan 16.15.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -