- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: „Þetta var svakalegur leikur“

Íslensku stúlkurnar voru skiljanlega leiðar eftir tapið fyrir Egyptum í morgun. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Þetta var svakalegur leikur. Við lékum í raun fantavel. Barátta og vinnusemi var ótrúlega góð og frammistaðan á köflum stórkostleg. Það sem varð okkur að falli í leiknum þegar upp er staðið eru fimmtán hraðaupphlaup og dauðafæri sem fóru forgörðum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is eftir að íslenska liðið lauk keppni á heimsmeistaramótinu í Skopje í Norður Makedóníu rétt fyrir hádegið.

Vantaði þrjá leikmenn


Íslensku stúlkurnar töpuðu fyrir Egyptalandi í viðureigninni um áttunda sætið eftir vítakeppni, 35:33. Ágúst Þór sagði ennfremur að það hafi haft sitt að segja þegar komið er í áttunda leik á 12 dögum í erfiðri keppni að þrír leikmenn af sextán gátu ekki tekið þátt í viðureigninni í dag. Elísa Elíasdóttir meiddist um miðbik mótsins, Tinna Sigurrós Traustadóttir meiddist gegn Frökkum á mánudaginn og Sara Dröfn Richardsdóttir er meidd á öxl og getur ekki kastað bolta með góðu móti.

„Við söknum þessara leikmanna og fundum fyrir að hópurinn var aðeins farinn að þynnast. Vinnusemin í þeim sem eftir voru var mögnuð og ekki hægt að biðja um meira,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Eins og flestir okkar leikir í keppninni

„Leikurinn við Egypta var eins og flestir okkar leikir í mótinu. Mjög jafnir og spennandi. Að þessu sinni töpuðum við í vítakeppni, áður með einu marki fyrir Hollendingum og með þremur mörkum fyrir Frökkum. Til viðbótar gerðum við jafntefli við Svartfellinga, unnum Norður Makedóníu með þriggja marka mun á þeirra heimavelli og unnu Svía í hörkuleik. Þá eru ótaldir sannfærandi sigrar á Íran og Alsír. Úrslitin í mótinu segja mikið til um gæði og styrk sem lið okkar býr orðið yfir,“ sagði Ágúst Þór og bætir við.

Íslensku stúlkurnar eiga og mega vera stoltar af árangri sínum á HM. Mynd/IHF

Stórkostlegt mót – stoltur af stelpunum

„Þegar maður lítur til baka er ekki hægt að segja annað en að mótið hafi verið stórkostlegt af okkar hálfu. Staðreyndin að því loknu er sú að við eigum áttunda besta lið heims. Af því er ég mjög stoltur og af stelpunum sem hafa staðið sig stórkostlega,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfurum U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -