- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU20: Þær norsku bundu enda á sigurgöngu Ungverja

Heimsmeistarar Noregs í handknattleik kvenna, 20 ára og yngri. Mynd/IHF
- Auglýsing -

Norska landsliðið varð í dag heimsmeistari í handknattleik kvenna meðal landsliða skipuðum leikmönnum 20 ára og yngri. Norska liðið vann Evrópumeistara U19 ára frá síðasta ári, lið Ungverja, með tveggja marka mun, 31:29, í úrslitaleik í Celje í Slóveníu.

Þetta í annað sinn sem Noregur vinnur heimsmeistaratitilinn í þessum aldursflokki en stúlkur fæddar 1990 og 1991 unnu heimsmeistaratitlinn árið 2010. Norska liðið fór taplaust í gegnum mótið að þessu sinni.


Ungverska landsliðið hafði verið afar sannfærandi á mótinu og unnið alla sína leiki þangað til að úrslitaleiknum kom. Liðið varð Evrópumeistari U19 ára landsliða á síðasta ári í sömu keppnishöll í Celje með nokkrum yfirburðum, vann Rússa með níu marka mun í úrslitaleik, 31:22.

Komust einu sinni yfir

Norska liðið var aðeins einu sinni undir í úrslitaleiknum, 27:26, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Þá hafði ungverska liðið náð að skora fimm mörk í röð gegn aðeins einu norsku. Ungverjar náðu tveggja marka forskoti, 28:26, í kjölfarið áður en þær norsku jöfnuðu metin. Mínútu fyrir leikslok í stöðunni, 30:29, fyrir Noreg átti ungverskur leikmaður skot í stöng.


Ungversk landslið hafa á síðustu árum haft nokkurt forskot meðal yngri landsliða. Meðal annars hafði hópurinn sem lék úrslitaleikinn í dag unnið 15 leiki í röð. Ungverjar höfðu titil að verja eftir sigur á HM 2018 en mótið 2020 féll niður af alþekktum ástæðum.

Bronsið kom í hlut Hollendinga

Hollendingar tóku öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik gegn Svíum í viðureigninni um þriðja sætið og unnu með 11 marka mun, 31:20. Aðeins var fjögurra marka munur að loknum fyrri hálfleik, 16:12.


Danir hlutu fimmta sætið eftir hörkuleik við landslið Angóla, 23:21. Þjóðverjar lögðu Svisslendinga í leiknum um sjöunda sætið, 29:27. Leikmenn svissneska liðsins sóttu hressilega í sig veðrið í síðari hálfleik. Þeir voru sex mörkum undir í hálfleik, 16:11.


Sviss hefur aldrei náð eins langt og nú á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða kvenna.

Hinn 30. júlí hefst heimsmeistaramót U18 ára kvennalandsliða í Skopje í Norður Makedóníu. Íslenska landsliðið verður á meðal 32 þátttökuliða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -