- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU21: Búist er við að líf verði í tuskunum utan vallar

Leikurinn við Grikki á HM hefst klukkan 14.30 á morgun, sunnudag. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

Árla í morgun hófust þjálfarar og leikmenn íslenska landsliðsins handa við að búa sig undir leikinn við Grikki í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Leikurinn fer fram á morgun og hefst klukkan 14.30.

Búist er við að líf verði í tuskunum utan vallar meðal grískra áhorfenda í Melina Merkouri-íþróttahöll Olympiacos í Aþenu. Alltént hafa áhorfendur ekki látið sitt eftir liggja meðan á leikjum gríska liðsins hefur staðið til þessa í mótinu.

Gunnar Magnússon íþróttastjóri HSÍ er með landsliðinu í för ytra. Hann hefur krufið gríska liðið til mergjar í samstarfi við þjálfarana, Einar Andra og Róbert Gunnarsson. Gríska liðið er sagt öflugt, ekki síst sem sóknarlið. Næsti sólarhringur verður vel nýttur að sögn Einars Andra, hvergi verði slakað á.

Hernaðaráætlun yfirfarin

„Við funduðum í morgun með leikmönnum og hittumst aftur um miðjan daginn áður en við förum á æfingu þar sem farið verður yfir hernaðaráætlun okkar,“ sagði Einar Andri og bætti við.

„Grikkir eru með sterkt lið. Þeir voru með yfirhöndina lengi vel í viðureigninni við Egypta í gær. Auk þess fær gríska liðið mikinn stuðning frá áhorfendum. Við verðum að vera búnir undir að leika í miklum hávaða og í gríðarlegri stemningu,“ sagði Einar Andri sem er hvergi banginn.

Þurfum tvo sigurleiki

„Fókusinn hjá okkur er á að vinna báða leikina í milliriðli, Grikki á morgun og Egypta á mánudaginn. Í grunninn er það okkar leið í átta liða úrslitin. Við skulum ljúka leiknum við Grikki áður en lengra verður haldið í huganum,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari U21 árs landsliðsins sem lét ekki draga sig út í umræður um ef og kannski daginn fyrir fyrsta leik í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -