Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri er komið í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu. Piltarnir unnu egypska landsliðið í síðari leiknum í milliriðlakeppni mótsins í dag, 29:28, í dæmalausum handboltaleik. Sigurinn tryggði íslenska liðinu efsta sæti riðilsins og um leið öruggt sæti í átta liða úrslitum. Þetta er í fyrst sinn í þrjá áratugi sem íslenskt landslið vinnur sér sæti í átta liða úrslitum á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða karla.
Mæta Portúgal í Berlín
Íslensku strákarnir mæta landsliði Portúgal í átta liða úrslitum í Max Schmeling Halle í Berlín í Þýskalandi á fimmtudaginn klukkan 13.45 að íslenskum tíma, 15.45 að staðartíma. Sigurliðiðleikur til undanúrslita. Tapliðið um sæti fimm til átta. Portúgal hafnaði í öðru sæti í milliriðli tvö eftir sjö marka tap fyrir Færeyingum í dag, 31:24. Færeyingar mæta að öllum líkindum Serbum í átta liða úrslitum.
Ísland hefur þar með unnið allar fimm viðureignir sína á mótinu.
Réðu lögum og lofum
Íslenska liðið réði lögum og lofum í leiknum í Aþenu í dag gegn Egyptum. Eftir jafnar upphafs mínútum tók íslenska liðið á rás og skoraði sjö mörk gegn tveimur eftir að staðan hafði verið jöfn, 7:7. Egyptar virtust ekki ná neinum takti í sinn leik, hvorki í vörn né sókn. Arnór Viðarsson kom Íslandi sex mörk mörkum yfir á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks, 19:13.
Allt virtist leika í lyndi
Í upphafi síðari hálfleiks lék allt í lyndi hjá íslenska liðinu. Það jók jafnt og þétt forskotið. Jóhannes Berg Andrason kom Íslandi 10 mörkum yfir, 25:15, þegar 11 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Flest stefndi í stórsigur. Önnur varð nú raunin.
Leikur íslensku piltanna hrökk í baklás. Hver sóknin rann út í sandinn á eftir annarri. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 26:26. Egyptar sem virtust hafa misst móðinn höfðu svo sannarlega komist á bragðið. Þeir saumuðu að íslensku piltunum sem tókst með yfirvegun að halda sjó eftir að nánast í óefni var komið.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sigurmarkið úr vítakasti, 29:28, þegar leiktíminn var úti. Vítakastið var dæmt eftir að örvæntingarfull tilraun Egypta til þess að vinna boltann nokkrum sekúndum fyrir leikslok endaði með kippt var í hálsmálið á treyju Jóhannesar Berg.
Að draga lærdóm
Á morgun færir íslenska liðið sig um set, frá Aþenu til Berlínar. Á leiðinni verða menn að draga lærdóm af 15 mínútunum í síðari hálfleik í dag.
Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 6, Arnór Viðarsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 4/2, Jóhannes Berg Andrason 3, Tryggvi Þórisson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Andri Finnsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Símon Michael Guðjónsson 1, Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 5/1, 25% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 4, 24%.
HMU21: Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.