- Auglýsing -
Portúgal mætir Danmörku í viðureign um fimmta sætið á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í handknattleik karla. Portúgal lagði Króatíu, 36:32, í síðari leik krossspilsins um fimmta til áttunda sætið í Max Schmeling Halle í Berlín í hádeginu í dag. Jafnt var eftir fyrri hálfleik, 17:17.
Króatía verður þar með andstæðingur Færeyinga í leiknum um sjöunda sætið sem hefst klukkan 8 í fyrramálið að íslenskum tíma. Danir og Portúgalar hefja viðureign sína um fimmta sæti mótsins klukkan 10.30. Hægt verður að fylgjast með báðum leikjum á youtube-síðu IHF.
Portúgalska liðið var mun sprækara í síðari hálfleik og vann sanngjarnan sigur. Engu var líkara en leikmenn Króatíu væru orðnir þreyttir þegar á leið.
- Auglýsing -