Hægri hornamaður Aftureldingar, Stefán Magni Hjartarson, hefur alls ekki náð fullri heilsu eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg í fjórðu og næst síðustu viðureign Aftureldingar og Vals í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar í vor. Stefán Magni fékk heilahristing við höggið og sagði við handbolta.is á dögunum að hann ætti engar minningar frá leiknum.
Heldur í vonina
Stefán Magni var valinn í æfingahóp 19 ára landsliðsins í vor. Hann hefur enn ekkert getað æft með liðinu. Engu að síður hefur Stefán Magni ekki gefið upp vonina um að komast með landsliðinu á heimsmeistaramótið sem hefst í Kaíró í Egyptalandi eftir mánuð. Stefán Magni hefur verið fastamaður í yngri landsliðum undanfarin sumur enda einn af efnilegri hægri hornamönnum landsins.
Síðustu vikur hefur Stefán Magni verið í endurhæfingu undir stjórn Elíss Þórs Rafnssonar sjúkraþjálfara og doktors í faginu. Stefán Magni sagði í samtali við handbolta.is að góðar framfarir hafi átt sér stað upp á síðkastið sem gæfi von um bjartsýni. Hann verði þó áfram að gæta þess að fara sér í engu óðslega.