Eftir stórsigur á rúmenska landsliðinu í fyrradag þá magalenti hollenska kvennalandsliðið í dag þegar það mætti norska landsliðinu á æfingamóti fjögurra landsliða í Holstebro í Danmörku. Norska landsliðið var nánast eitt á leikvellinum í síðari hálfleik og skoraði 21 mark gegn aðeins sjö mörkum hollenska landsliðsins, lokatölur, 33:21.
Hollenska landsliðið verður fyrsti andstæðingur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Innsbruck á föstudaginn.
Staðan Hollendinga var ágæt þegar fyrri hálfleikur var að baki. Liðið var yfir, 14:12. Í síðari hálfleik tók við svartnætti hjá hollenska landsliði þegar við tók stórleikur norska landsliðsins sem lék á alla sína fegurstu strengi. Fyrstu 20 mínútur síðari hálfleik skoruðu Hollendingar aðeins þrjú mörk.
Ellefu leikmenn norska landsliðsins skoruðu mörkin 33. Markahæst var Henny Reistad með sex mörk.
Hollenska landsliðið leikur við danska landsliðið í lokaumferð mótsins á morgun og Noregur mætir Rúmeníu.
Danir unnu Rúmena með 10 marka mun í dag, 35:25.