- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hraði okkar kom þeim í opna skjöldu

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals frá 2017 til 2023. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þótt Ungverjarnir hafi byrjað vel og tekist að skorað svolítið hjá okkur í byrjun og vera yfir þá fann ég það strax að þeir voru undrandi á því hversu hraðir við vorum. Hraðinn kom þeim í opna skjöldu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals við handbolta.is í kvöld eftir sigur Vals á FTC í fyrstu umferð B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik, 43:39.

Fyrri hálfleikurinn sá besti

„Fyrri hálfleikur er sennilega bara sá besti sem Valsliðið hefur spilað síðan ég tók við þjálfun liðsins,” sagði Snorri Steinn sem var skiljanlega afar ánægður með þessa góðu byrjun Vals í keppninni.

Stiven Tobar Valencia og Benedikt Gunnar Óskarsson fagna sigrinum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


„Það gekk allt upp hjá okkur í fyrri hálfleik. Mörkin röðuðust inn, tæknifeilarnir voru fáir eða engir og markvarslan var fín. Okkur tókst að grípa mómentið og gengum á lagið. En vissulega var það kúnst að halda sjó í síðari hálfleik,“ sagði Snorri Steinn.

Velti fyrir mér skiptingum

Valur byrjaði síðari hálfleik á að ná tíu marka forskoti áður en leikmenn FTC með Máté Lékai í broddi fylkingar lögðu allt í sölurnar til þess að snúa taflinu við. „Lékai var afar erfiður og við réðum ekkert við hann. Af því að við vorum með gott forskot þá leyfði ég mér að halda áfram að skipta á milli varnar og sóknar og láta Arnór og Benedikt leik áfram í sókninni. Þegar á leið og aðeins gekk á forskot okkar þá velti ég fyrir mér leiðum til þess að fækka skiptingunum,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.


„Ég er ánægður með sigurinn og þá staðreynd að FTC-liðið tók slaginn við okkur. Svona leik viljum við spila. Ég er ekkert viss um að mörg lið munu reyna að draga úr hraðanum í leikjunum,“ sagði Snorri Steinn.


„Ég er himinlifandi með sigurinn og hafa náð í tvö fyrstu stigin, náð þeim strax í fyrsta leik. Maður veit ekki hvað tekur við og hvar þetta lið stendur í samanburði við önnur lið í riðlinum. Það getur verið að hin liðin séu öll betri en FTC. Við erum alltént komnir með tvö stig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -