- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Hún er ótrúlegt eintak“

Katrine Lunde markvörður Evrópumeistara í handknattleik kvenna. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Hún er ótrúlegt eintak,“ sagði Þórir Hergeirsson þjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik spurður út í markvörðinn Katrine Lunde sem er enn ein sú besta í heiminum þrátt fyrir að vera komin inn á fimmtugsaldur.


Lunde tók þátt í úrslitaleik Noregs og Danmörkur á EM 2004 og í úrslitaleiknum við Dani á EM á síðasta sunnudag kom hún inn á þegar 15 til 20 mínútur voru til leiksloka og varði allt hvað af tók. Var best þegar mest á reyndi.

Þeim eldri á eftir að fjölga

„Á næstu árum eigum við eftir að sjá fleiri leikmenn í kvennaflokki leika lengur en þeir hafa gert. Margar þeirra lifa á handbolta og lifa vel. Norska handknattleikssambandið styður vel við bakið á leikmönnum og þeim er gert kleift að fara í barneignarfrí og fá stuðning í níu mánuði eins og aðrir meðan á því stendur. Þetta virkar mjög hvetjandi og gefur möguleika á að vera lengur í handboltanum. Auk þess er alltaf að eiga sér stað þróun í þjálfun.

Þórir Hergeirsson þjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna. Mynd/EPA


Vonandi verður þetta til þess að fleiri leikmenn, ef þeir hafa innri hvöt til þess að leika áfram á efsta stigi og brenna fyrir íþróttina, leiki áfram þótt þær eigi eitt eða tvö börn meðan á ferlinum stendur,“ segir Þórir og bætir við að það sé samt mismunandi eftir líkambyggingu handknattleiksfólks hvort það geti haldið áfram að leika fram yfir fertugt.

Markverðir og hornamenn

„Ég sé alveg fyrir mér að fleiri markverðir og hornamenn leiki áfram yfir fertugt á komandi árum. Hornamaðurinn Camilla Herrem en eitt dæmi. Hún er 36 ára og er nú í fæðingaorlofi og væntir annars barns á næstunni. Herrem er í hrikalega góðu formi og getur og mun halda áfram í nokkur ár í viðbót.


Það verður meiri áskorun fyrir skyttur og línumenn að leika fram undir eða yfir fertugt. En það fer auðvitað eitthvað eftir týpum og meiðslasögu,“ sagði Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -