- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hvar eru Grænhöfðaeyjar?

Stuðningsmenn landsliðs Grænhöfðaeyja á einum leikja liðsins á HM í Gautaborg. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið mætir landsliði Grænhöfðaeyja í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik á miðvikudaginn í Gautaborg. Landslið þjóðanna hafa aldrei mæst áður á handknattleiksvellinum, alltént ekki í flokki A-landsliðs karla.

Grænhöfðaeyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi nærri 600 km undan vesturströnd Afríku og bera nafn sitt af höfða (Cap-Vert) á strönd Senegal. Íbúar eru um hálf milljón. Eyjarnar voru óbyggðar þegar Portúgalar uppgötvuðu þær á 15. öld og gerðu að miðstöð fyrir þrælaflutninga.

Grænhöfðaeyjar voru nýlenda Portúgals fram undir lok áttunda áratugar síðustu aldar.


Þess má geta að um skeið voru mikil tengsl á milli Íslands og Grænhöfðaeyja. Ísland veitti eyjunum þróunaraðstoð frá 1979 til 1993 og skipaði sendiherra í landinu.

Gualther Furtado leikmaður landsliðs Grænhöfðaeyja skorar í leik við Úrúgvæ í 1. umferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn í Gautaborg. Mynd/EPA

Náðu einum leik á HM 2021

Grænhöfðaeyjar tóku fyrst þátt í HM í Egyptalandi 2021. Þátttakan varð endasleppt. Liðið varð að draga sig úr keppni eftir einn leik þegar kórónuveiran lagði þá fáu leikmenn sem eftir voru í liðinu. Um helmingur leikmannahópsins auk þjálfara komst aldrei til Egyptalands eftir að veirunni sló niður í bækistöðvar liðsins í Portúgal rétt fyrir brottför til Kaíró.


Landslið Grænhöfðaeyja hafnaði í öðru sæti á Afríkumótinu í júlí sl. eftir tap fyrir Egyptum í úrslitaleik í Kaíró.


Flestir leikmenn landsliðsins leika í Portúgal enda hefur lengi verið mikil tengsl þar á milli. Einnig er Grænhöfðeyinga að finna í félagsliðum í Frakklandi og á Spáni.

Úrslit leikja í C-riðli HM:
Grænhöfðaeyjar – Úrúgvæ 33:25 (17:11).
Svíþjóð – Grænhöfðaeyjar 34:27 (19:8).
Brasilía – Grænhöfðaeyjar 30:28 (17:15).
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -