„Mér þykir sem nú sé rétti tíminn til að breyta til. Ég tel mig hafa náð öllu út úr Lemgo ævintýrinu sem mögulegt er,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Lemgo spurður út í fréttir síðustu viku að hann ætlaði að söðla um í sumar og kveðja þýska liðið Lemgo sem hann hefur leikið með frá árinu 2019. Næsti áfangastaður liggur þó ekki fyrir.
„Markmið mitt og metnaður hefur ævinlega staðið til að ná eins og langt og hægt er. Nú þegar vel gengur þá tel ég rétt að láta reyna á meðbyrinn sem ég hef og kanna hvert hann feykir mér. Ef ég nýti ekki meðbyrinn núna til að breyta til, hvenær þá? Ég er 31 árs og hef aldrei leikið betur en að undanförnu,” sagði Bjarki Már sem varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2020 og er um þessar mundir í efsta sæti yfir leikmenn í þýsku 1. deildinni.
Enn hefur ekkert hlaupið á snærið hjá Bjarka Má og umboðsmanni hans, Arnari Frey Theodórssyni. Þeir fiska sem róa.
„Ég vildi óska þess að ég gæti sagt þér að ég hefði eitthvað fast í hendi en svo er ekki. Ég bíð og legg taust mitt á umboðsmanninn. Meðan einbeiti ég mér að íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem stendur fyrir dyrum,” sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður og leikmaður Lemgo sem flaug út með landsliðinu til Búdapest í morgun.
Fyrsti leikur Íslands á EM verður á föstudaginn gegn Portúgal. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
- Verður handboltinn færður á Vetrarólympíuleika eða sleginn út af borðinu?
- Þórir í fótspor Bogdans, Guðmundar Þórðar og Alfreðs
- Aron og Elvar fara varlega í sakirnar – fyrst og fremst varúðarráðstöfun
- Palicka semur við Íslendingaliðið til tveggja ára
- Alfreð fékk slæmar fréttir þegar undirbúningur hófst