Sautján leikmenn auk þjálfara og annarra aðstoðarmanna skipaði íslenska landsliðið sem vann bronsverðlaun á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða karla sem lauk í Max Schmeling Halle í Berlín í gærkvöld.
Hverjir eru þessir 17 leikmenn sem unnu fyrstu verðlaun Íslands á heimsmeistaramóti í þessum aldursflokki í 30 ár? Bronsstrákarnir okkar.
Handbolti.is freistar þess að svara þeirri spurningu á sannkölluðu hundavaði hér yfir neðan.
Adam Thorstensen markvörður úr Stjörnunni. Adam er tvítugur. Hann gekk til liðs við Stjörnuna sumarið 2020 frá ÍR. Adam vakti snemma athygli og var 15 ára gamall þegar hann lék fyrst með meistaraflokki ÍR. Hann hefur verið einn markvarða yngri landsliðanna á stórmótum undanfarin þrjú sumur.
Andri Finnsson er tvítugur línumaður. Andri er Valsari en var í hálft annað ár leikmaður Gróttu, var lánaður frá Val en var kallaður til baka úr láni um mitt síðasta tímabil og kom m.a. við sögu í leikjum Valsliðsins í Evrópudeildinni í vetur sem leið. Yfirvegaður línumaður sem nýtir sín færi.
Andri Már Rúnarsson er tvítugur miðjumaður og skytta. Andri hóf snemma að æfa handknattleik með Þór á Akureyri og síðar í Þýskalandi þar sem foreldrar hans bjuggu frá 2012 til 2018 þegar Rúnar faðir hans var þjálfari ytra. Rúnar lék sem atvinnumaður um árabil í Þýskalandi og á Spáni. Andri lék með Stjörnunni frá 2018 til 2020, Fram 2020 til 2021 er hann gekk til liðs við Stuttgart í Þýskalandi. Andri flutti heim í september á síðasta ári og samdi við Hauka. Sigtryggur Daði bróðir hans leikur með ÍBV. Móður Andra, Heiða Erlingsdóttir, var landsliðskona og Íslandsmeistari með Víkingi á sinni tíð. Afi Andra Más, Sigtryggur Guðlaugsson, var fyrr á tíð ein kjölfesta handknattleiksliðs Þórs á Akureyri.
Arnór Viðarsson er 21 árs gamall leikmaður Íslandsmeistara ÍBV. Arnór er skytta og getur leikið hvort heldur vinstra eða hægra megin auk þess að vera afar sterkur varnarmaður. Hann er Eyjamaður í húð og hár og hefur leikið með meistaraflokki undanfarin þrjú ár og verið einn fastamanna í yngri landsliðum Íslands. Bróðir hans, Elliði Snær, er A-landsliðsmaður og leikmaður Gummersbach í Þýskalandi.
Benedikt Gunnar Óskarsson er tvítugur Valsari í húð og hár. Hann er fyrst og fremst leikstjórnandi þótt hann geti leikið fleiri stöður, t.d. vinstra horn. Benedikt sló í gegn með Val á liðinni leiktíð, ekki síst fyrir á tíðum frábæra leiki í Evrópudeildinni. Eins og fleiri í liðinu er Benedikt Gunnar af mikilli handknattleiksfjölskyldu. Faðirinn Óskar Bjarni Óskarsson er þjálfari Vals og pottur og panna um árabil í handknattleik hjá félaginu. Eldri bróðirinn er Arnór Snær verðandi leikmaður Rhein-Neckar Löwen. Einnig leika tvær yngri systur með yngri flokkum Vals.
Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður er Mosfellingur. Nýlega orðinn 21 árs. Hann lék upp yngri flokka Aftureldingar og er nú orðinn annar tveggja markvarða meistaraflokks. Brynjar Vignir varð bikarmeistari með Aftureldingu í mars og var ekki síst í stóru hlutverki í sigurleik á Stjörnunni í undanúrslitum. Markvörður þessa árgangs landsliðsins ásamt Adam Thorstensen og Jóni Þórarni Þorsteinssyni undanfarin þrjú ár.
Einar Bragi Aðalsteinsson er tvítugur Kópavogsbúi og vinstri skytta. Hann lék upp yngri flokka HK en skipti sumarið 2022 yfir til FH og gerði það gott með Hafnarfjarðarliðinu á síðasta vetri. Faðir Einar Braga, Aðalsteinn, var örvhent skytta sem lék handknattleik með Breiðabliki á níunda áratug síðustu aldar og lék um skeið einnig í Þýskalandi. Föðurbróðurinn, Björn, var einnig öflugur á handknattleiksvellinum í stöðu vinstri skyttu.
Guðmundur Bragi Ástþórsson er tvítugur Hafnfirðingur og leikstjórnandi. Hann er orðinn einn af burðarásum Haukaliðsins. Guðmundur Bragi lék með Aftureldingu hluta af tímabilinu 2020/2021 og aftur framan af tímabilinu 2021/2022 sem lánsmaður. Var undir smásjá þýska liðsins ASV Hamm Westfalen fyrir síðasta tímabil og fór og tók þátt í æfingaleikjum með liðinu. Einn af efnilegri handknattleiksmönnum sinnar kynslóðar, lítillátur en lætur verkin tala inni á leikvellinum.
Ísak Gústafsson er örvhent skytta frá Selfossi og einn fjögurra leikmanna í hópnum sem fæddur er árið 2003. Hlutverk Ísaks hjá Selfossliðinu hefur farið vaxandi. Engu að síður þá kaus hann að færa sig um set í vor og samdi við deildarmeistara Vals þar sem hans bíða skemmtilegar áskoranir.
Jóhannes Berg Andrason er einnig örvhent skytta og fæddur árið 2003 eins og Ísak. Jóhannes lék með Víkingi upp yngri flokka en söðlaði um fyrir ári og gekk til liðs við FH sem er hálfgert fjölskyldulið. Jóhannes hefur miklar handboltatengingar. Faðir hans, Andri Berg Haraldsson, lék árum saman í efstu deild m.a. FH og Fram. Hann hefur ekki lagt skóna á hilluna ennþá og var með Víkingi á nýliðinni leiktíð. Amma Jóhannesar, Margrét Theodórsdóttir, er fyrrverandi landsliðskona. Föðursystir Jóhannesar er Birna Berg Haraldsdóttir landsliðskona og leikmaður ÍBV.
Jón Þórarinn Þorsteinsson er einnig fæddur 2003. Hann er Selfyssingur og einn af efnilegri markvörðum landsins. Mikill stemningsmaður sem átti á tíðum flotta innkomu í leikjum með Selfossi á síðasta vetri. Jón Þorsteinn hreif ekki aðeins samherja sína með sér heldur áhorfendur líka. Hann var í U19 ára landsliðinu á EM fyrir tveimur árum. Jón Þorsteinn var valinn maður leiksins í einum af leikjum Íslands á mótinu.
Kristófer Máni Jónasson 21 árs gamall örvhentur hornamaður úr Haukum sem er einnig af handboltafjölskyldu. Faðir hans, Jónas Árnason var línumaður með FH. Guðjón föðurbróðirinn er ein af goðsögnum í sögu handknattleiks hjá FH-ingum að ógleymdum afanum, Árna Guðjónssyni, sem lék lengi með FH og varð Íslands- og bikarmeistari. Magnús bróðir Jónasar og Guðjóns var markvörður hjá FH og Haukum. Bróðir Mána, Halldór Ingi, er einnig handknattleiksmaður og er nú í herbúðum Víkinga. Kristófer Máni var valinn í úrvalslið HM í gær.
Róbert Snær Örvarsson er fjórði pilturinn í hópnum sem fæddur er 2003. Róbert Snær er vinstri skytta. Hann gekk til liðs við ÍR fyrir ári síðan eftir að hafa leikið upp yngri flokka Hauka. Róbert Snær vakti athygli fyrir góða frammistöðu á köflum með sínu nýja liði á síðasta tímabili.
Símon Michael Guðjónsson er tvítugur Kópavogsbúi sem leikið hefur með HK en hefur ákveðið að söðla um fyrir næstu leiktíð og ganga til liðs við FH. Símon Michael hefur verið hluti af þessi hóp síðustu þrjú árinu. Eldri bróðir hans Sigvaldi Björn leikur með A-landsliðinu og er leikmaður Kolstad í Noregi. Systir Símons er Elna Ólöf sem einnig hefur leikið með A-landsliðinu. Þrenn handboltasystkini.
Stefán Orri Arnalds er tvítugur Framari sem hefur sannarlega vaxið ásmegin á undanförnum árum. Sló í gegn með U-liði Fram fyrir þremur árum en er nú orðinn aðal hægri hornamaður Fram í Olísdeildinni. Hefur tekið miklum framförum og nýtti sín tækifæri vel á HM.
Tryggvi Þórisson er einn af fleirum í akademíu Selfoss á síðustu árum sem hefur gert sig gildandi. Heljarmenni að burðum. Traustur varnarmaður og einnig línumaður. Tryggvi gekk til liðs við IK Sävehof sumarið 2022 eftir að hafa vakið athygli á EM 2022. Eins og fleiri í þessum hópi hefur Tryggvi verið með á síðustu þremur stórmótum árgangsins.
Þorsteinn Leó Gunnarsson tvítug rétthent hægri handar skytta úr Mosfellsbæ. Leikmaður bikarmeistara Aftureldingar. Þorsteinn leikur mest sem skytta hægra megin. Hann hefur tekið stórstígum framförum síðustu tvö ár og er með meira lofandi leikmönnum á Íslandi í dag enda langt síðan að hillt hefur undir stórskyttu af hans hæð og styrk í íslenskum handknattleik. Hann er bróðir Ernu Sóleyjar Gunnarsdóttir Íslandsmethafa í kúluvarpi.
Einar Andri Einarsson og Róbert Gunnarsson þjálfarar.
Hlynur Morthens markvarðaþjálfari.
Kári Árnason sjúkraþjálfari.
Guðni Jónsson liðsstjóri.
Gunnar Magnússon íþróttastjóri HSÍ og fararstjóri.