- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hverjir eru helstu menn færeyska landsliðsins?

Nýlega mynd af færeyska karlalandsliðinu. Mynd/Handboltasamband Færeyja
- Auglýsing -

Í tilefni af frábærum árangri færeyska landsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik í gærkvöld þegar liðið vann sitt fyrsta stig í sögunni á EM með jafntefli við Noreg er hér fyrir neðan endurbirt grein frá handbolti.is 3. nóvember 2023 þegar færeyska landsliðið sótti það íslenska heim til tveggja leikja í Laugardalshöll. Hér er tæpt á helstu leikmönnum færeyska landsliðsins.

Færeyska landsliðið í handknattleik karla kom til landsins í dag og mætir íslenska landsliðinu í kvöld og á morgun í Laugardalshöll. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.30. Viðureignin á morgun hefst klukkan 17.30.

Báðir landsleikir Íslands og Færeyinga í handknattleik karla verða sendir út í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans, aðalrásinni.

Færeyingar hafa verið í mikilli sókn í handknattleik síðustu árin og náð frábærum árangri á Evrópu- og heimsmeistaramótum yngri landsliða á síðustu árum og m.a. skotið íslenskum landsliðum ref fyrir rass í einhverjum tilfellum. Ekki hefur aðeins karlalandsliðið sótt í sig veðrið heldur einnig kvennalandsliðið og leikur til að mynda um helmingur landsliðskvenna utan heimalandsins.

Fá landslið í Evópu hafa náð betri tökum á sjö manna sóknarleik en það færeyska.

Margir leikmenn færeyska karlalandsliðsins voru í U21 árs landsliðinu sem hafnaði í 7. sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Grikklandi og Þýskalandi í lok júní og í byrjun júlí.

Færeyingar voru ekki langt frá að komast í undanúrslit á mótinu. Þeir léku um undanúrslitasæti við Serba en máttu bíta í það súra epli að tapa. Þeir unnu Króata í leik um 7. sætið.
Hér verður hlaupið yfir helstu leikmenn liðsins.

Þjálfari færeyska landsiðsins er Daninn Peter Bredsdorff-Larsen. Hann er vel þekktur í heimalandi sínu og náði m.a. mjög góðum árangri með Berringbro/Silkeborg sem hann þjálfaði árum saman. Einnig var hann samstarfsmaður Guðmundar Þórðar Guðmundssonar þegar Guðmundur þjálfaði danska landsliðið.

Leikstjórnandi Kiel

Þekktasti er handknattleiksmaður Færeyja um þessar mundir er vafalaust Elias Ellefsen á Skipagøtu. Hann gekk til liðs við þýska meistaraliðið THW Kiel í sumar og hefur gert það gott. Elias er aðeins 21 árs gamall og leikur alltaf með númerið 71 á bakinu. Hann var í tvö ár hjá sænska liðinu Sävehof áður hann samdi við Kiel. Bróðir Eliasar, Rói, er einnig í landsliðinu. Elias stjórnar öllum sóknarleik Færeyinga frá A til Ö.

Elias Ellefsen á Skipagøtu er öflugur. Mynd/EHF

Eitt helsta efni Evrópu

Frændi hans, Óli Míttun, er aðeins 18 ára gamall, fæddur 2005, leikur ævinlega í treyju með númer 78 á bakinu. Óli þykir eitt mesta efni í evrópskum handknattleik um þessar mundir. Hann leikur með Sävehof en hefur verið orðaður við skipti til Pick Szeged næsta sumar um leið og þjálfari sænska liðsins færir sig þangað yfir. Systir Óla, Jana, leikur með kvennalandsliðinu og var í H71 sem hefur orðið færeyskur meistari nokkur síðustu ár og gert það gott í Evrópubikarkeppninni.

Óli var markakóngu EM 18 ára landsliða sumarið 2022 og HM 19 ára landsliða sem haldið var í Króatíu í sumar.

Bróðir Óla, Pauli, er einnig í landsliðinu en stendur bróður sínum eitthvað að baki en getur verið skeinuhættur ef sá gállinn er á honum.

Óli Míttún í kjörstöðu í kappleik. Mynd/EHF

Árásarmenn

Hoyvikingarnir Elías og Óli eru miklir árásarmenn. Elías stýrir yfirleitt leik færeyska liðsins með Óla sér annað hvort til vinstri eða hægri handar.

Hornamaður frá Berlín

Hákun West af Teigum er eldfljótur hægri hornamaður og leikmaður Füchse Berlin, efsta liðs þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir. Hákun kom til félagsins í sumar frá Skanderborg-Aarhus. Hákun var valinn íþróttamaður ársins í Færeyjum á síðasta ári. Hornamaður sem nýtir færi sín afar vel, jafnt í hraðaupphlaupum sem í opnum leik.

Sterkur línumaður

Ísak Vedelsbøl er hávaxinn og öflugur línumaður. Hann var frábær á HM 21 árs landsliða í sumar. Hann vinnur mjög vel með Elíasi og Óla og getur verið illviðráðanlegur enda heljarmenni að burðum.

Enn einn úr 21 árs landsliðinu

Annar markvörður færeyska landsliðsins, Pauli Jacobsen, stóð sig afar vel með færeyska landsliðinu á HM 21 árs landsliða í sumar eins og fleiri leikmenn A-landsliðsins. Pauli átti afar góða spretti í undankeppni EM, ekki síst í vor í sigurleik gegn Úkraínu í Þórshöfn.

Nokkur þekkt andlit hér á landi

Íslenskir handknattleiksunnendur þekkja síðan nokkra leikmenn sem hafa leikið eða leika hér á landi.

Allan Norðberg leikur með Val en var um árabil með KA.

Einnig er örvhenta skyttan Vilhelm Poulsen þekktur hér á landi eftir að hafa leikið með Fram frá 2020 til 2022. Vilhelm var nærri búinn að vera markahæstur í Olísdeildinni á síðasta ári. Meiðsli á lokasprettinum settu strik í þann reikning.

Markvörðurinn Nicholas Satchwell var markvörður KA í fjögur ár, allt þangað til í sumar að hann færði sig yfir til Viking TIF í Noregi.

Línumaðurinn Pætur Mikkjalsson lék með KA hluta út keppnistímabilinu 2021/2022 en festi ekki rætur og sneri heim á miðju tímabili.

Fleiri leikmenn skipa færeyska landsliðið en verða ekki taldir upp hér.

Miðasala á leikina er hér.

Allir sterkustu leikmenn Færeyinga mæta Íslendingum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -