- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hversu lengi á að draga lappirnar?

Hvenær dregur EHF upp rauða spjaldið upp úr vasa sínum? Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Morten Stig Christensen formaður danska handknattleikssambandsins segir að Danir séu almennt tilbúnir að styðja við bakið á systrasamböndum á Norðurlöndum enda viti hann ekki betur en það sé gagnkvæmt. Þetta segir hann í svari við fyrirspurn Vísis um hvort til greina komi að danska handknattleikssambandið aðstoði við að hýsa heimaleiki íslensku landsliðanna í handknattleik, ef til þess komi.
  • Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, tók svo djúpt í árinni á dögunum að segja að það væri þjóðarskömm að ekki væri til almennileg þjóðarhöll hér á landi. Hafi þau orð ekki verið svipuhögg á ráðamenn þá veit ég ekki hvað. Kannski eru þeir að þylja upp Pontusarrímur eldri og bíða næst höggs?
  • Handknattleikssambandið og körfuknattleikssambandið hafa um langt árabil verið á undanþágu með keppnishallir hér á landi vegna landsleikja í undankeppni stórmóta. Jafnvel svo lengi að elstu starfsmenn HSÍ muna ekki í sviphendingu árafjöldan.
  • Hversu lengi undanþágurnar gilda er ómögulegt að segja. Nokkuð víst að þolinmæði stjórnenda Handknattleikssambands Evrópu er ekki endalaus, ekki síst þegar ekkert sést annað en hilling á eyðimerkurgöngu sama hversu lengi er ráfað um.
  • Undanþága Færeyinga til keppni í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn var afturkölluð og máttu Færeyingar bíta í það súra epli að leika heimaleiki sína um skeið á Jótlandi eða allt þar til kórónuveiran tók að leika lausum hala. Þá var undanþága veitt á ný.
  • Öðru máli gegnir með bræður og okkar og systur í Færeyjum. Þau láta verkin tala. Ákveðið er að hefjast handa á þessu ári við byggingu veglegrar þjóðarhallar í Þórshöfn. Meira að segja eru uppi áform um aðra höll í Skálum.
  • Nærri tvö ár eru liðin síðan ítarlegri og góðri skýrslu var skilað inn af hálfu starfshóps um byggingu nýs þjóðarleikvangs. Frá þeim tíma hafa hendur ekki verið látnar standa fram úr ermum.
  • Á sama tíma og Færeyingar draga fram verkfæri sín, steypumót og byggingarkrana og búa sig undir byggingu þjóðarhallar veltist bygging slíks húss hér á landi eins og blaut handsápa á milli Heródesar og Pílatusar.
  • Hversu lengi á að draga lappirnar og deila um keisarans skegg?
  • Kannski getum við öll sem bíðum eftir þjóðarhöll sameinast um eitt slagorð fyrir næstu kosningar, hvar sem við í flokki stöndum. Er ekki bara best að kjósa nýju föt keisarans?

    Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -