- Auglýsing -
- Auglýsing -

Í dagsferð til Skopje

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Leikmenn þýska liðsins Flensburg fara í dagsferð til Skopje í Norður-Makedóníu á morgun til þess að leika við Vardar í Meistaradeild karla í handknattleik. Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar er ekki mikið um ferðir á milli Þýskalands og Skopje þessa dagana. Þess utan er æskilegt að leikmenn, þjálfari og starfsmenn staldri sem styst við í Norður-Makedóníu þar sem kórónuveiran leikur fólk grátt eins og víðast hvar annarstaðar um þessar mundir.


Þess vegna er það nánast eina lausnin að leigja flugvél undir hópinn sem leggur af stað frá Sønderborg á suðurhluta Jótlands í rauða býtið í fyrramálið. Viðureign Vardar og Flensburg fer fram annað kvöld og mun þýski hópurinn fara rakleitt til baka eftir leikinn.


Svipaður háttur var hafður á þegar Flensburg sótti PSG heim til Parísar á dögunum. Reyndar flugferðin styttri.


Sem fyrr segir leikur kórónuveiran lausum hala í Norður-Makedóníu. Af þeim sökum hefur Vardar aðeins leikið einn leik í A-riðli Meistaradeildar á þessar leiktíð meðan Flensburg á þrjá leiki að baki og sex stig. M.a. hafa leikmenn Vardar veikst af veirunni og má þar m.a. nefna línumanninn sterka Stojance Stoilov.


Engum áhorfendum verður hleypt inn í íþróttahöll Vardar-liðsins sem er sérlega glæsilegt mannvirki er stendur við syðri bakka Vardar-fljótsins í útjaðri Skopje. Stuðningsmenn liðsins eru þekktir fyrir að mynda einstakt andrúmsloft á kappleikjum í höllinni sem hefur gert hana að hinni mestu ljónagryfju.


Þetta verður í fyrsta sinn sem Vardar og Flensburg mætast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þau mættust í átta liða úrslitum 2014 og aftur 2017. Flensburg hafði betur í fyrra skiptið og vann reyndar keppnina það árið. Vardar vann rimmuna 2017 og tryggði sér sæti í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar og vann keppnina þvert á allar spár í framhaldinu í fyrsta sinn í sögu sinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -