Tvö dönsk lið, Esbjerg og Odense Håndbold auk Metz frá Frakklandi og Evrópumeistara Györ frá Ungverjalandi tryggðu sér um helgina sæti í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í handknattleik. Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer að vanda fram í Búdapest. Að þessu sinni verður leikið til undanúrslita laugardaginn 31. maí. Úrslitaleikirnir verða daginn eftir.
Af liðunum fjórum er árangur Odense Håndbold athygliverðastur en liðið hefur aldrei áður náð svo langt í keppninni. Þar á ofan komst liðið áfram með því að leggja FTC (Ferencváros) í síðari viðureigninni í Búdapest á laugardaginn, 25:24. Fyrri viðureigninni á Fjóni lauk með jafntefli, 27:27.
Í hnífjöfnum leik í Búdapest á laugardaginn komst Odense tveimur mörkum yfir, 25:23, skömmu fyrir leikslok og tókst að halda sjó til loka þrátt fyrir ákafa sókn heimaliðsins.
Katrine Lunde, landsliðsmarkvörður Noregs, sem samdi við Odense fyrir nokkrum vikum er þar með enn einu sinni komin í undanúrslit Meistaradeildar en hún er sigursælasta handknattleikskona sögunnar í keppninni.

Danmerkurmeistarar Esbjerg eru aftur á móti í úrslitum Meistaradeildar fjórða árið í röð. Esbjerg gerði út um vonir CSM Búkarest um sæti í undanúrslitum. Þess má til fróðleiks geta að Helle Thomsen nýráðin landsliðsþjálfari Danmerkur er þjálfari CSM sem vann síðast Meistaradeildina fyrir níu árum eftir æsilega vítakeppni í úrslitaleik við Györ.
Henny Reistad skoraði sex mörk fyrir Esbjerg sem vann með fjögurra marka mun á heimavelli, 26:22, eftir eins marks tap í Búkarest fyrir viku.

Cristina Neagu lék kveðjuleik sinn í Meistaradeild Evrópu í gær. Hún hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í sumar eftir langan feril og 1.232 mörk í Meistaradeildinni. Neagu vann einu sinni Meistaradeildina; árið 2015 með ŽRK Budućnost frá Svartfjallalandi.
Úrslit helgarinnar í átta liða úrslitum:
Metz Handball – Brest Bretagne 33:32 – samanlagt 62:58.
Györ – Ludwigsburg 29:22 – samanlagt 54:46.
Esbjerg – CSM Búkarest 26:22 – samanlagt, 55:52.
FTC – Odense Håndbold – 24:25 – samanlagt 52:51.