Meistaraflokkur Íslandsmeistara Vals í handknattleik karla verður í sóttkví fram á föstudag eftir að smit greindist innan flokksins á sunnudaginn og í gær eins og handbolti.is greindi fyrst frá í gærkvöld. Þar með verður ekkert af för Valsara til Króatíu í fyrramálið til leikja við RK Porec í Króatíu á föstudag og á laugardag í Evrópukeppninni.
Valsmenn vinna að lausn í samvinnu við HSÍ og Handknattleikssamband Evrópu, EHF, vegna Evrópuleikjanna. Síðari keppnishelgi í 1. umferð Evrópudeildarinnar er 4. og 5. september. Komi ekki fleiri smit upp á yfirborðið innan Valsliðsins getur verið möguleiki á að fresta viðureignunum við Porec um viku.
Stór hópur af leikmönnum og starfsmönnum Valsliðsins fór í skimun síðari hluta dags í gær. Eftir því sem næst verður komist hefur ekkert jákvætt smit greinst í þeim sýnum sem niðurstaða hefur fengist úr til þessa.