ÍBV lagði Gróttu með tveggja marka mun í viðureign liðanna í Vestmannaeyjum í dag í Olísdeild karla í handknattleik, 31.29, eftir hafa einnig verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15.
Eyjamenn sitja í sjötta til sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig eins og Stjarnan. Hvorki gengur né rekur hinsvegar hjá Gróttu sem situr föst í 10. sæti með 10 stig.
Vísir.is bendir á þá staðreynd að Grótta hefur ekki unnið leik síðan 3. október á síðasta ári. Þá lagði Grótta lið ÍBV, 32:30, í Hertzhöllinni.
ÍBV náði fimm marka forskoti, 20:15, snemma í síðari hálfleik og aftur 22:17, og virtist ætla að gera út um leikinn. Þrátt fyrir að illa hafi gengið hjá Gróttumönnum síðustu mánuði þá voru þeir ekki tilbúnir að leggja átakalaust árar í bát í Vestmannaeyjum. Þegar kom fram yfir miðjan síðari hálfleik tóku leikmenn Gróttu að róa að því öllum árum að jafna metin. Þeim lánaðist að minnka muninn í tvígang í eitt mark. Nær komust þeir ekki. Endasprettinn áttu leikmenn ÍBV.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk ÍBV: Dagur Arnarsson 9, Sigtryggur Daði Rúnarsson 7/2, Daniel Esteves Vieira 5, Sveinn Jose Rivera 3, Gauti Gunnarsson 3, Andri Erlingsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 1, Elís Þór Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 12/1, 30,8% – Petar Jokanovic 2/1, 50%.
Mörk Gróttu: Jón Ómar Gíslason 7/2, Ágúst Ingi Óskarsson 6/3, Jakob Ingi Stefánsson 5, Gunnar Dan Hlynsson 3, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 2, Alex Kári Þórhallsson 2, Elvar Otri Hjálmarsson 2, Atli Steinn Arnarson 2.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 9/1, 24,3% – Hannes Pétur Hauksson 2/1, 40%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.