- Auglýsing -
ÍBV tapaði með 11 marka mun í fyrri leiknum við spænska liðið Costa del Sol Málaga, 34:23, á Spáni í kvöld en um var að ræða fyrri viðureignina í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Heimaliðið var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:12. Liðin mætast öðru sinni á sama stað á morgun.
Spænska liðið var mikið sterkara frá upphafi til enda. Varnarleikur liðsins var mjög góður og tókst að draga allt bit úr sóknarleik ÍBV-liðsins strax í upphafi. Eftir aðeins stundarfjórðung var munurinn orðinn fimm mörk, 9:4. ÍBV sótti aðeins í sig veðrið þegar á leið hálfleikinn en nokkur mistök urðu dýr og komu í veg fyrir að munurinn væri minni í hálfleik en raun varð á.
Leikmönnum Málagaliðsins tókst fljótlega að ná tíu marka forskoti í síðari hálfleik. Sá munur hélst meira og minna til leiksloka.
Sem fyrr segir var varnarleikur spænska liðsins mjög góður og það refsaði miskunnarlaust með hraðaupphlaupum og seinni bylgju mörkum. ÍBV lagði þó aldrei árar í bát þótt við ofurefli væri að etja.
Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 8, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 5, Sunna Jónsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Lina Cardell 2, Elísa Elíasdóttir 1.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.
- Auglýsing -