- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV er einu skrefi frá deildarmeistaratitlinum

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

ÍBV færðist einu skrefi nær deildarmeistaratitlinum í Olísdeild kvenna í kvöld með öruggum sigri á KA/Þór í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum, 28:23, eftir að hafa verið níu mörk yfir í hálfleik, 18:9.


Eftir sigurinn í kvöld er staðan sú að takist bikarmeisturunum að vinna Selfoss í Eyjum á laugardaginn kemur deildarmeistarabikarinn í hlut ÍBV-liðsins hvernig sem allt verkast í lokaumferðinni laugardaginn 1. apríl.


ÍBV er efst í deildinni með 34 stig eftir 19 leiki. KA/Þór er í fimmta sæti með 12 stig og ætti að óbreyttu að eiga sæti í úrslitakeppninni víst, ekki síst ef ÍBV vinnur Selfoss.


Enginn vafi lék á hvort liðið var sterkara að þessu sinni enda eru þau hvort á sínum stað á ásnum. ÍBV með fullmannað hörkulið sem varð bikarmeistari á laugardagin en KA/Þór með lið í uppbyggingu eftir miklar breytingar á undanförnu ári.


ÍBV var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Sterkur varnarleikur og góð markvarsla ásamt kraftmiklum sóknarleik kom liðinu í níu marka forskot fyrir lok fyrri hálfleiks.


KA/Þórsliðið sýndi meiri ákveðni framan af síðari hálfleik og tókst að minnka muninn í sex mörk um skeið áður en leikmenn ÍBV tóku á sig rögg og náðu tíu marka forskoti, 26:16. Síðustu mínúturnar fengu yngri leikmenn að spreyta sig og leikurinn leystist upp en KA/Þórsliðið gerði það sem þurfti til þess að forðast stórt tap.

Staðan í Olísdeild kvenna.


Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6/4, Sunna Jónsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Amelía Einarsdóttir 2, Karolina Olszowa 2, Ingibjørg Olsen 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 41,4% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 3, 33,3%.

Mörk KA/Þórs: Nathalia Soares Baliana 8, Ida Margrethe Hoberg 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3/2, Sunna Katrín Hreinsdóttir 2, Agnes Vala Tryggvadóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 13/1, 32,5% – Sif Hallgrímsdóttir 2.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -