- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV féll úr leik í Prag

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV tapaði síðari viðureign sinni við Dukla Prag ytra í kvöld með sjö marka mun, 32:25, og er þar með úr leik í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla á þessu tímabili. Eins marks sigur í fyrri leiknum í gær hjálpaði lítið upp á sakirnar í dag og Dukla vann samanlagt í leikjunum tveimur, 65:59.


ÍBV skoraði tvö fyrstu mörkin í leiknum í DHC Sport Hall í Prag í kvöld. Heimamenn svöruðu með þremur mörkum og náðu yfirhöndinni sem þeir héldu allt til leiksloka. Dukla var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.


Síðari hálfleikur var jafn framan af en þegar komið var fram á tíundu mínútu jók Dukla forskot sitt jafnt og þétt. Í lokin leystist leikurinn aðeins upp og munurinn varð meiri en e.t.v. gefur rétta mynd um þróun hans.


Að því er virtist í afar skrykkjóttri útsendingu frá leiknum þá brást leikmönnum ÍBV oft bogalistin. Tomas Petrzala, markvörður Dukla, var vel á verði í markinu sem létti Eyjamönnum ekki róðurinn. M.a. varði Petrzala átta af níu skotum sem hann fékk á sig úr hornum. Varlega áætlað er að hann hafi varið 22 skot.


Þar með eru öll íslensku félagsliðin úr leik í Evrópukeppninni að Íslandsmeisturum Vals undanskildum.


Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 8, Arnór Viðarsson 4, Róbert Sigurðarson 4, Nökkvi Snær Óðinsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 2, Elmar Erlingsson 1, Sveinn José Rivera 1, Dánjal Ragnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokonovic 14, 35%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -