Íslandsmeistarar ÍBV hófu leiktíðina í handknattleik karla með því að tryggja sér sigurlaunin í Meistarakeppni HSÍ með sanngjörnum sigri á Aftureldingu í Vestmannaeyjum í kvöld, 30:25. Eyjamenn voru með yfirhöndina nánast frá upphafi. Forskot þeirra var fjögur mörk í hálfleik, 16:12.
Afturelding skoraði tvö fyrstu mörk leiksins áður en Eyjamenn svörðu með tveimur mörkum. Afturelding komst yfir á ný, 3:2. Eftir það sem lifði leiksins voru Eyjamenn með yfirhöndina. Þeir voru mest sjö mörkum yfir, 12:5.
Myndasyrpa frá leiknum á Eyjar.net.
Aftureldingarmenn byrjuðu síðari hálfleik af krafti og minnkuðu muninn í eitt mark, 18:17. Nær komst þeir ekki. Leikmenn ÍBV voru sterkari og þótt forskotið væri á tíðum tvö mörk þá virtist sem ÍBV hefði ákveðna stjórn á leiknum.
Vonbrigði
Eftir góða leiki á undirbúningstímabilinu þá olli frammistaða Aftureldingar að þessu sinni vonbirgðum. Sóknarleikurinn var slakur, talsvert var um mistök auk þess sem nokkrir lykilmenn eins og Þorsteinn Leó Gunnarssonar voru ekki nema skugginn af sjálfum sér. Varnarleikurinn heldur ekki góður og markvarslan eftir því. Svo má ekki gleyma því að oft færðu leikmenn Aftureldingar andstæðingum sínum boltann á silfurfati sem leiddi til hraðaupphlaupa. Mikið mæddi á Árna Braga Eyjólfssyni og Blæ Hinrikssyni sem máttu ekki við margnum.
ÍBV-liðið var öflugra en í síðustu æfingaleikjum. Dagur Arnarsson kom inn af miklum krafti og lék vel eins og Arnór Viðarsson. Portúgalinn Daniel Esteves Vieira á ennþá talsvert í land. Reyndar er nægur tími framundan.
Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 7, Dagur Arnarsson 6, Elmar Erlingsson 3, Gabríel Martinez Róbertsson 3, Gauti Gunnarsson 3, Dánjal Ragnarsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Breki Þór Óðinsson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 7/1, 33,3% – Petar Jokanovic 3, 27,3%.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Blær Hinriksson 6, Leó Snær Pétursson 5, Ihor Kopyshynskyi 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Birgir Steinn Jónsson 1, Stefán Magni Hajrtarson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 5, 21,7% – Jovan Kukobat 2/1, 14,3%.
Tölfræði er fengin hjá HBStatz þar sem ótal aðrar upplýsingar er að finna.
Leikjadagskrá Olísdeildar karla.
Streymi frá leiknum í Vestmannaeyjum.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.