- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV sendi Stjörnuna í sumarfrí

Leikmenn ÍBV stíga sigurdans eftir sigurinn á Stjörnunni í dag. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

ÍBV er komið í undanúrslit í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna eftir að hafa lagt Stjörnuna öðru sinni í 1. umferð úrslitakeppninnar í TM-höllinni í Garðabæ í dag, 29:26. Eftir sigur ÍBV í fyrsta leiknum í Eyjum á fimmtudaginn varð Stjarnan að vinna viðureignina í dag til þess að fá oddaleik í Vestmannaeyjum á þriðjudag. Stjarnan var nokkuð frá sigri í leiknum í dag.


ÍBV var með völdin frá upphafi og náði um skeið fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik. Sem fyrr var varnarleikur ÍBV afar góður og það sem ekki strandaði á vörninni sá Marta Wawrzynkowska um í markinu. Stjörnuliðið átti verulega erfitt uppdráttar í sóknarleiknum eins og í Vestmannaeyjum á fimmtudag þegar liðinu tókst aðeins að skora 17 mörk.


ÍBV var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10. Fljótlega í síðari hálfleik var munurinn orðinn fimm og sex mörk. Hvorki gekk né rak hjá Stjörnunni á sama tíma og flest var í blóma hjá ÍBV.


Það kristallaði e.t.v. leik Stjörnunnar að einu sinni í síðari hálfleik léku fjórir leikmenn ÍBV sex varnarmenn Stjörnunnar upp úr skónum og skoruðu 22. mark liðsins, 22:17, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Stjarnan fór í sókn í kjölfarið tveimur fleiri og missti boltann nánast í upphafi sóknarinnar með slakri línusendingu.


Tíu mínútum fyrir leikslok var munurinn sex mörk, 24:18, ÍBV í vil. Munurinn varð mestur sjö mörk áður aðeins dró saman á síðustu mínútum.
Árangur ÍBV er enn athyglisverðari fyrir þær sakir að Birna Berg Haraldsdóttir tók ekki þátt í leikjunum vegna meiðsla og Sunna Jónsdóttir hefur vart verið með heldur, einnig sökum meiðsla.


Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 9. Stefanía Theodórsdóttir 5, Elísabet Gunnarsdóttir 4/2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Sólveig Lára Kjærnested 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1.
Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 7, 35% – Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 4/1, 20%.
Mörk ÍBV: Harpa Valey Gylfadóttir 8, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 8/1, Ásta Björt Júlíusdóttir 5/1, Elísa Elíasdóttir 3, Lina Cardell 2, Kaolina Olszowa 2, Aníta Björk Valgeirsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 13, 41,9% – Darija Zecevic 1, 11,1%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -