ÍBV vann öruggan sigur á Fjölni, 30:26, í upphafsleik 15. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í Fjölnishöllinni í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12. ÍBV situr áfram í sjötta sæti deildarinnar og hefur nú 16 stig. Fjölnir rekur lestina með sex stig.
Eftir jafna stöðu í hálfleik þá tóku leikmenn Fjölnis frumkvæðið í byrjun síðari hálfleiks og komust tveimur mörkum yfir, 18:16. Útlitið var ekki svo slæmt á þessu tíma. Í kjölfarið fylgdu hinsvegar brottrekstrar á heimaliðið sem áttu sinn þátt í að liðið tapaði niður þræðinum. Eyjamenn gengu á lagið. Þeim tókst að loka betur vörn sinni. Jafn og þétt komust leikmenn ÍBV yfir meðan leikmenn Fjölnis voru í vandræðum með að skora.
Fjölni tókst að minnka muninn í þrjú mörk þegar skammt var eftir, 27:24. Tvö mörk í röð frá Degi Arnarssyni sáu til þess að minnstu hættu var bægt frá.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Fjölnis: Elvar Þór Ólafsson 6, Gunnar Steinn Jónsson 5, Róbert Dagur Davíðsson 4, Björgvin Páll Rúnarsson 4/1, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Alex Máni Oddnýjarson 2, Gísli Rúnar Jóhannsson 1, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 9/2, 25,7%.
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 7, Daniel Esteves Vieira 6, Gabríel Martinez Róbertsson 5, Nökkvi Snær Óðinsson 4, Andri Erlingsson 2/1, Róbert Sigurðarson 2, Breki Þór Óðinsson 2, Dagur Arnarsson 1, Gauti Gunnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 6, 23,1% – Pavel Miskevich 0.
Tölfræði HBStatz.