- Auglýsing -
- Auglýsing -

IHF áminnir norska formanninn fyrir ummæli um Rússa

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Kåre Geir Lio formaður norska handknattleikssambandsins fékk ofanígjöf frá framkvæmdastjórn alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, á dögunum vegna yfirlýsingar sem hann sendi frá sér síðla vetrar í samtali við VG. Þar lýsti Lio yfir furðu sinni á að fyrirtæki í eigu eins af taglhnýtingum Vladimir Pútíns forseta Rússlands væri helsti styrktaraðili Meistaradeildar kvenna í handknattleik.


Lio gagnrýndi Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hálfum mánuði eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu, fyrir að halda samstarfi sínu áfram við rússneska flutningafyrirtækið Delo. Fyrirtækið er í eigu Sergey Shishkarev forseta rússneska handknattleikssambandsins. Skömmu síðar sleit EHF samstarfinu í við Delo en svaraði Lio ekki að öðru leyti.


Ummæli Lio um Shishkarev fóru fyrir brjóstið á forvígismönnum rússneska handknattleikssambandsins sem lögðu inn kvörtun til IHF.


Hassan Moustafa forseti IHF og félagar hans litu málið alvarlegum augum. Sendu þeir Norðmanninum áminningu um að ummælin væru til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Bæri honum að gæta orða sinna.


Lio segir í samtali við VG að hann taki áminningu mátulega hátíðlega. Hann standi við orð sín um að Shishkarev væri taglhnýtingur forsetans og að fyrirtækið starfaði í skjóli Pútíns.


Shishkarev var í rúman áratug þingmaður dúmunnar fyrir flokk Pútíns.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -