- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR-ingar eru komnir upp að hlið Selfyssinga

Katrín Tinna Jensdóttir, leikmaður ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -


ÍR færðist upp að hlið Selfoss með 13 stig með öruggum sigri á ÍBV, 34:30, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Skógarseli í dag. ÍR var með yfirhöndina frá byrjun til enda, m.a. var sjö marka munur að loknum fyrri hálfleik, 21:14. Eins og áður segir færir sigurinn ÍR-inga upp að hlið Selfoss, hvort lið hefur 13 stig, Selfoss á eftir fimm leiki en ÍR fjóra.

Liðin í fjórða og fimmta sæti mætast í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna.


ÍBV situr í sjöunda sæti af átta liðum deildarinnar með sjö stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Þar er liðið að berjast með kjafti og klóm fyrir að halda umspilssætinu á lokasprettinum en Grótta er skammt á eftir og bíður færis. Eitt lið fellur úr Olísdeildinni en það sem hafnar í næst neðsta sæti tekur þátt í umspili um sætið við lið úr Grill 66-deildinni. Eins og dæmin sanna frá síðustu árum er ekki á vísan róið hjá Olísdeildarliðunum í þeirri keppni.

Næstu leikir liðanna verða eftir þrjár vikur. Hlé verður gert eftir helgina á keppni í Olísdeild kvenna vegna úrslitaleikja Poweradebikarsins. Að þeim leikjum loknum tekur við viku æfingabúðir kvennalandsliðsins.

ÍBV fór illa að ráði sínu í fyrri hálfleik í Skógarseli. Sóknarleikurinn var slakur og lítið fór fyrir varnarleiknum. ÍR-ingar gengu á lagið og voru með sjö marka forksot þegar 30 mínútur voru liðnar af leiktímanum, 21:14.

ÍBV náði ekki áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks. Fjórar af fyrstu fimm sóknum liðsins skiluði ekki árangri. ÍR-hélt fjögurra til sjö marka forskoti nær allan tímann. ÍBV tókst aðeins að klóra í bakkann undir lokin.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


Mörk ÍR: Sylvía Sigríður Jónsdóttir 10/3, Katrín Tinna Jensdóttir 6, Dagmar Guðrún Pálsdóttir, 6. Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 5, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Vaka Líf Kristinsdóttir 1, Hanna Karen Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 12/2, 33,3% – Hildur Öder Einarsdóttir 3, 33,3%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 9/1, Sunna Jónsdóttir 5, Ásdís Halla Hjarðar 3, Yllka Shatri 3, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 2/1, Birna Dís Sigurðardóttir 1, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1.
Varin skot: Ólöf Maren Bjarnadóttir 6, 30% – Bernódía Sif Sigurðardóttir 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz
.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -