ÍR-ingar hafa ekki látið hug falla þótt að á ýmsu hafi gengið hjá þeim upp á síðkastið. Þeir sýndu í dag svo um munaði að þeir ætla sér að berjast fyrir tilverurétti sínum í Olísdeildinni þegar þeir unnu KA á sannfærandi hátt í Skógarseli, 35:29, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 17:15. ÍR er þar með aðeins þremur stigum á eftir KA og Gróttu.
Staðan í Olísdeild karla.
Upp að hlið Fram og Stjörnunnar
Á sama tíma tapaði neðsta lið deildarinnar, Hörður frá Ísafirði, þrettánda leiknum í Olísdeildinni á leiktíðinni þegar þeir sóttu lið Selfoss heim í Sethöllina á Selfoss, 36:29. Heimamenn voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Með sigrinum fór Selfossliðið upp að hlið Fram og Stjörnunnar með 17 stig. Hörður er einn og yfirgefinn í neðsta sæti með tvö stig.
Stigu á bensíngjöfina
ÍR skoraði fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. KA tókst að jafna, 21:21. Yfir komust Akureyringar ekki. ÍR-ingar stigu á bensíngjöfina og litu ekki í baksýninspegilinn eftir það með Ólafur Rafn Gíslason í banastuði í markinu.
Góð byrjun dugði skammt
Harðarmenn byrjuðu vel í Sethöllinni. Þeir léku vörn Selfoss hvað eftir annað grátt og voru komnir með fjögurra marka forskot, 9:5, eftir 12 mínútur. Þá hafði hinn yfirvegaði þjálfari Selfoss, Þórir Ólafsson, fengið nóg. Hann tók leikhlé og skipulagði leik sinna manna upp á nýtt. Aðeins níu mínútum síðar var staðan jöfn, 12:12. Áður en fyrri hálfleikur var á enda voru heimamenn komnir yfir.
Mun sterkari í síðari hálfleik
Í síðari hálfleik voru Ísfirðingar aldrei líklegir til þess að ógna Selfyssingum. Þeir fór illa að ráði sínu í sókninni og auk þess sem varnarleikur og markvarsla var slök sem er reyndar ekki ný saga.
Selfoss – Hörður 36:29 (17:14).
Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 7, Einar Sverrisson 5, Atli Ævar Ingólfsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Karolis Stropus 3, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Ragnar Jóhannsson 2, Haukur Páll Hallgrímsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 1, Sölvi Svavarsson 1, Jón Þórarinn Þorsteinsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 12, Vilius Rasimas 2.
Mörk Harðar: Guntis Pilpuks 9, Sudario Eidur Carneiro 5, Mikel Amilibia Aristi 4, Leó Renaud-David 4, Guilherme Andrade 3, Jón Ómar Gíslason 3, Óli Björn Vilhjálmsson 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 11, Stefán Freyr Jónsson 0.
ÍR – KA 25:29 (15:17).
Mörk ÍR: Bjarki Steinn Þórisson 7, Hrannar Ingi Jóhannsson 7, Viktor Sigurðsson 7, Sveinn Brynjar Agnarsson 4, Róbert Snær Örvarsson 3, Dagur Sverrir Kristjánsson 3, Ólafur Rafn Gíslason 2, Arnar Freyr Guðmundsson 1, Úlfur Gunnar Kjartansson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 17/1, 37,8% – Rökkvi Pacheco Steinunnarson 0.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 6/4, Dagur Gautason 6, Gauti Gunnarsson 5, Ólafur Gústafsson 3, Allan Norðberg 2, Magnús Dagur Jónatansson 2, Dagur Árni Heimisson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Ragnar Snær Njálsson 1.
Varin skot: Nicholas Adam Satchwell 7, 21,2% – Bruno Bernat 6, 40%.
Staðan í Olísdeild karla.