ÍR-ingar unnu afar kærkominn og mikilvægan sigur á ÍBV í Olísdeild kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag, 26:23, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13.
Með sigrinum færðist ÍR upp í sjötta sæti deildarinnar og sendi ÍBV um leið niður í sjöunda og næst neðsta sæti. Liðin eru jöfn að stigum, með sex stig hvort, en vegna sigursins í dag stendur ÍR betur að vígi í innbyrðis viðureignum. Liðin skildu jöfn, 22:22, í Skógarseli í september.
Leikurinn þótti kaflaskiptur en ÍBV var með frumkvæðið framan af. ÍR-ingar voru hinsvegar hvergi bangnir og skoruðu fjögur síðustu mörk og náðu þar með forskoti, 15:13, áður en gengið var til búningsherbergja.
ÍR-ingar héldu fengnum hlut í síðari hálfleik og gott betur. Talsverðu máli skipti að unglingalandsliðsmarkvörðurinn Ingunn María Brynjarsdóttir náði sér vel á strik. Hún varði alls 15 skot, nærri 40% hlutfallsmarkvörsla.
ÍBV var án Marta Wawrzynkowska, markvarðar, og Karolina Olszowa í leiknum.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 8, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 3, Britney Cots 3, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Birna Berg Haraldsdóttir 3/1, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1.
Varin skot: Bernódía Sif Sigurðardóttir 11/1, 31,4%.
Mörk ÍR: Sylvía Sigríður Jónsdóttir 8/4, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Vaka Líf Kristinsdóttir 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Hildur María Leifsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Ingunn María Brynjarsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 15, 39,5%.
Tölfræði HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Þrír leikir fór fram í Olísdeild kvenna í gær: Ekki stöðvaði Selfoss meistarana – Haukar og Fram unnu sína leiki
Olísdeild kvenna – fréttasíða.