ÍR-ingar kvöddu neðstu liðin þrjú í Olísdeild kvenna í kvöld með góðum sigri á KA/Þór í KA-heimilinu í kvöld 22:19 í síðasta leik liðanna í deildinni á árinu. ÍR hefur þar með 10 stig eftir níu leiki og er fimm stigum á undan liðinu í sjötta sæti deildarinnar, KA/Þór. Afturelding og Stjarnan eru þar fyrir neðan.
Valur er efstur
Á sama tíma og leikið var á Akureyri var einnig leikið í Vestmannaeyjum. Íslandsmeistarar Vals unnu öruggan sigur á ÍBV, 25:17, og hafa þar með náð efsta sæti deildarinnar í bili, hið minnsta. Haukar eru tveimur stigum á eftir Val en á leik inni við Aftureldingu annað kvöld en það verður síðasti leikur ársins í Olísdeild kvenna. Hlé verður gert fram yfir áramót vegna þátttöku íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem hefst undir mánaðamót.
Ef sama sigling verður á ÍR-liðinu þegar þráðurinn verður tekinn upp eftir áramót er ljóst að það það flýgur inn í úrslitakeppnina í vor og gæti jafnvel gert atlögu að fjórða sætinu ef vel gengur.
Endasleppt hjá KA/Þór
KA/Þórsliðið var sterkara lengi fram eftir leiknum í KA-heimilinu í kvöld. M.a. var þriggja marka munur í hálfleik, 11:8. Snemma í síðari hálfleik varð forskot heimaliðsins í tvígang fimm mörk, 13:8 og 14:9. ÍR jafnaði metin, 15:15, eftir 15 mínútna leik í síðari hálfleik.
ÍR-ingar voru sterkari í síðari hlutanum. KA/Þór skoraði aðeins fjögur mörk á loka stundarfjórðungnum en ÍR-ingar sjö mörk og unnu öruggan sigur. Þetta er ekki fyrsti leikurinn hjá KA/Þór á leiktíðinni þar sem sóknarleikurinn hrekkur í baklás á lokakaflanum.
Spennulítið
Ekki var vottur af spennu í viðureign ÍBV og Vals í Vestmannaeyjum. Valur var sjö mörkum yfir í hálfleik, 14:7. ÍBV beit aðeins frá sér snemma í síðari hálfleik og minnkaði muninn í þrjú mörk. Nær komst liðið ekki. Valur skoraði sex mörk í röð í kjölfarið og náði níu marka forskoti, 21:12. Lokatölur á Heimaey, 17:25, fyrir Val.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
ÍBV – Valur 17:25 (7:14).
Mörk ÍBV: Amelía Einarsdóttir 5/4, Elísa Elíasdóttir 3, Sunna Jónsdóttir 3, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 2, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 28,6%.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/3, Thea Imani Sturludóttir 5, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12, 52,2% – Sara Sif Helgadóttir 4, 40%.
KA/Þór – ÍR 19:22 (11:8).
Mörk KA/Þórs: Lydía Gunnþórsdóttir 5/3, Nathalia Soares Baliana 3/1, Isabella Fraga 3, Telma Lísa Elmarsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Aþena Einvarðsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Rafaele Nascimento Fraga 1.
Varin skot: Matea Lonac 15/3, 40,5%.
Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 9/4, Hanna Karen Ólafsdóttir 5, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 1, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 11, 37,9% – Hildur Öder Einarsdóttir 0.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.