- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR vann oddaleikinn og sendi Selfoss niður í Grill 66-deildina

Sigurlið umspils Olísdeildar kvenna 2023, ÍR. Ljósmynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl
- Auglýsing -

Nær öllum að óvörum vann ÍR lið Selfoss í oddaleik umspils Olísdeildar kvenna í handknattleik í Sethöllinni í kvöld, 30:27, og tekur þar með sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili. Þetta eru án efa ein óvæntustu úrslit í íslenskum handknattleik á síðustu árum. ÍR hafnaði í öðru sæti Grill 66-deildar kvenna í vetur. Selfoss varð næst neðst í Olísdeildinni og hefur innan sinna raða nokkuð reynda leikmenn meðan aðeins tveir leikmenn ÍR hafa nokkra reynslu af því að leika í efstu deild.

Aðeins eru þrjú ár síðan að til stóð að leggja meistaraflokk kvenna niður hjá ÍR.


Það ber að athuga að ÍR-ingar unnu tvo leik af þremur á heimavelli Selfossliðsins, fyrsta leik rimmunnar og þann síðasta. Það eitt og sér er stórt afrek.

Eftir frábæra byrjun, 1:4, eftir þrjár mínútur var ljóst að ÍR-liðið hafði öðlast trú á verkefninu á nýjan leik, þ.e. að klífa þrítugan hamarinn eftir tvo slæma tapleiki í rimmum liðanna á síðustu dögum.

Leikmenn ÍR ærðust af kæti þegar flautað var til leiksloka í kvöld. Mynd/sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þegar á hólminn var komið var það heimaliðið sem fór á taugum gegn reynslulitlum ÍR-ingum fyrir fram þéttskipaða Sethöllina á Selfossi í kvöld. Frábær byrjun gaf ÍR-liðinu byr í seglin. Það náði mesta átta marka forskoti eftir 18 mínútur, 5:13. Staðan í hálfleik var 14:18.

Selfoss jafnaði metin, 22:22 og 23:23, þegar korter var eftir af leiknum. Nær komst heimaliðið ekki. ÍR-ingar héldu aðdáunarverðri ró með táninga í flestum stöðum, sumar enn í 3. flokki.

Á sama tíma gáfu taugarnir sig hjá heimaliðinu sem sá sæti í Olísdeildinni renna sér úr greipum.

Ljóst er að úrslitin hljóta að setja allar áætlanir beggja liða í uppnám. Selfossliðið hefur að undanförnu verið að safna að sér leikmönnum. Hætt er við að einhverjar forsendur séu brostnar. Að sama skapi verður ÍR að leita leiða til að styrkja hópinn.

Mörk Selfoss: Arna Kristín Einarsdóttir 10/2, Katla María Magnúsdóttir 7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Roberta Stropé 3, Karen Helga Díönudóttir 1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1, Tinna Soffía Traustadóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 7/1, 24,1% – Katrín Ósk Magnúsdóttir 0.
Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 12/7, Vaka Líf Kristinsdóttir 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 4, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 4, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Guðrún Maryam Rayadh 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir/1, 27%, Ísabella Schöbel Björnsdóttir 0.

Myndskeið: Sigurgleði ÍR-inga í Sethöllinni í kvöld

Handbolti.is var í Sethöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -