- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísak fór hamförum og varð norskur meistari

Ísak Steinson, Noregsmeistari í handknattleik í 3. flokki. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Unglingalandsliðsmarkvörðurinn Ísak Steinsson varð Noregsmeistari í handknattleik í 3. flokki um síðustu helgi með IL ROS sem er samstarfsfélag og ungmennalið Drammen. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem það vinnur meistaratitilinn í 3. aldursflokki pilta. Ísak var í aðalhlutverki í undanúrslita- og úrslitaleiknum. Lék báða frá upphafi til enda og hreinlega lokaði markinu í síðari hálfleik í úrslitaleiknum við Fjellhammer.

Frammistaða Ísaks í úrslitaleiknum varð til þess að snúa gangi leiksins. IL ROS var undir, 14:12, að loknum fyrri hálfleik. IL ROS vann síðasta stundarfjórðunginn í síðari hálfleik, 13:3, eftir að berserksgangur rann á Ísak í markinu. Vissu leikmenn Fjellhammer ekki sitt rjúkandi ráð með þeim afleiðingum að þeim féll allur ketill í eld. IL ROS vann úrslitaleikinn með sjö marka mun, 30:23.

Noregsmeistarar ROS í 3. flokki karla. Ísak Steinsson er fjórði frá hægri í fremri röð. Mynd/Aðsend

Í undanúrslitum vann IL ROS liðsmenn Follo, 30:27. Follo var fimm mörk yfir í hálfleik, 18:13. Leikmenn Follo fengu ekki við neitt ráðið í síðari hálfleik, hvorki við sóknarmenn IL ROS né Ísak markvörð.

Ísak hefur búið nánast alla ævi í Noregi en valdi að leika fyrir Ísland eftir að hafa einnig staðið til boða að leika fyrir norsku unglingalandsliðin á sínum tíma. Ísak hefur leikið með U17, U18 og U19 ára landsliðum Íslands og var síðast með U19 ára landsliðinu á móti í Þýskalandi í lok síðasta árs.

Ísak var um tíma kallaður inn í aðallið Drammen í vetur þegar annar aðalmarkvörður liðsins meiddist eins og handbolti.is sagði frá í febrúar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -