Gróttumenn halda áfram að styrkja lið sitt fyrir næstu leiktíð í Olísdeild karla. Í dag tilkynnti handknattleiksdeild Gróttu um komu Ísfirðingsins Jóns Ómars Gíslasonar. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við lið Seltirninga.
Jón Ómar er fæddur árið 2000 og leikur aðallega sem skytta. Undanfarin þrjú tímabili hefur hann leikið alla leiki Harðar og verið með markahæstu mönnum. Í fyrra skoraði hann 80 mörk og var næstmarkahæsti leikmaður Ísfirðinga í frumraun Harðar í Olísdeildinni.
Fyrir utan að vera aðsópsmikill sóknarmaður getur Jón Ómar svo sannarlega látið að sér kveða við varnarleik. Er hann einn af þeim sem kalla má alhliða handknattleiksmaður.
„Við erum mjög ánægðir að fá Jón Ómar í Gróttu. Hann mun styrkja okkur mikið enda öflugur leikmaður á báðum endum vallarins,” sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins í tilkynningu frá handknattleiksdeildinni.
Jón Ómar er a.m.k. fimmti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Gróttu á síðustu vikum og ljóst að miklar breytingar verða á liðinu frá síðustu leiktíð. Ekki hafa aðeins leikmenn komið til Gróttu heldur hafa einnig menn róið á ný mið.
Karlar – helstu félagaskipti 2023