Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tekur þátt í Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15. desember. Liðið tryggði sér annað sæti í 7. riðli undankeppninnar með fjögurra marka sigri á færeyska landsliðinu, 24:20, Ásvöllum í dag. Tólf ár eru síðan Ísland var með á EM kvenna. Niðurstaðan er uppskera mikillar vinnu Arnars Péturssonar landsliðsþjálfara og leikmanna hans.
Þess utan mun árangurinn, að ná öðru sæti riðilsins, hækka íslenska liðið um styrkleikaflokk þegar dregið verður í riðla lokakeppninnar 18. apríl í Vínarborg.
Ekki var nóg með að íslenska landsliðið innsiglaði sæti í lokakeppni EM í fyrsta sinn í 12 ár heldur unnu Færeyingar sér einnig sæti í lokakeppninni. Færeyskt landslið hefur aldrei áður unnið sér sæti í lokakeppni stórmóts í handknattleik kvenna. Færeyingar fara áfram sem eitt af fjórum liðum með besta árangur í þriðja sæti. Það var því mikið um fögnuð á Ásvöllum í dag.
Frábær vörn og markvarsla
Íslenska landsliðið stóðst pressuna í leiknum í dag. Varnarleikurinn var skipulagður og öflugur. Að baki varnarinnar var Elín Jóna Þorsteinsdóttir í miklum ham og lék einn sinn besta landsleik. Elín Klara Þorkelsdóttir fór hamförum í sókninni, skoraði 10 mörk og átti fjölda stoðsendinga.
Fleiri má telja upp eins og Steinunni Björnsdóttir sem mætti til leiks hálfum fimmta mánuði eftir að hafa fætt barn og batt vörnina saman ásamt Sunnu Jónsdóttur fyrirliða. Auk þess skoraði Steinunn fimm mörk. Berglind Þorsteinsdóttir var frábær sem fremsti leikmaður í 5/1 vörn.
Eins og áður segir er árangurinn uppskera allra sem lagst hafa á árar.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 10, Steinunn Björnsdóttir 5, Perla Ruth Albertsdóttir 4/2, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 14/3, 42,4% – Hafdís Renötudóttir 0.
Mörk Færeyja: Jana Mittún 8, Anna Elisabeth Halsdóttir Weyhe 3/3, Liv Poulsen Sveinbjørnsdóttir 2, Pernille Brandeborg 2, Maria Pálsdóttir Nólsoy 2, Bjarta Osberg Hansen 1, Súna Krossteig Hansen 1, Turíð Arge Samuelsen 1.
Varin skot: Rakul Wardum 8, 42,1% – Annika Friðheim Petersen 4, 28,5%.
Handbolti.is var á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í textalýsingu.