- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Króataálögin voru ekki kveðin niður

Luka Cindric sækir að Elliða Snæ Viðarssyni í leiknum í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ekki tókst í dag að kveða niður Króataálögin sem hafa hvílt á íslenska landsliðinu í handknattleik karla á stórmótum. Enn eitt tapið var staðreynd, 23:22, í æsispennandi leik í MVM Dome í 3. umferð Evrópumóts karla í handknattleik. Ísland átti svo sannarlega möguleik á að fá annað stigið hið minnsta úr leiknum en því miður gekk það ekki. Króatar skoruðu sigurmarkið, 23:22, þegar 14 sekúndur voru til leiksloka.


Tveggja marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 12:10, Íslandi í vil.
Vonin um sæti í undanúrslitum er enn fyrir hendi. Til þess verður íslenska liðið að vinna Svartfellinga á miðvikudaginn og Danir að leggja Frakka síðar sama dag.


Ísland byrjaði leikinn vel í dag og var með fimm marka forskot, 9:4, þegar 20 mínútur voru liðnar af leiktímanum. Króatar komu sér inn í leikinn á lokakaflnum. Íslensku piltunum gekk illa að ráða við línumanna Króata sem vann hvert vítkastið á fætur öðru.

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í íslenska liðinu í dag. Hann skoraði sex mörk, þaraf fjögur í síðari hálfleik og kom Íslandi yfir, 22:21.


Íslenska liðið átti erfitt uppdráttar lengi framan af síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var erfiður og skoraði aðeins tveimur mörkum á fyrsta stundarfjórðungnum. Króatar náðu fimm marka forskoti, 19:14. Um tíu mínútum fyrir leikslok var munurinn fjögur mörk, 21:17. Þá kom afar góður íslenskur kafli sem skilaði liðinu í forystu, 22:21, þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiktímanum. Þá tók við markaþurrð. Upplögð marktækifæri fóru í súginn m.a. hjá Elliða Snæ Viðarssyni og Elvari Ásgeirssyni. Það var dýrt í jöfnum leik.

Ekki er nokkur ástæða til að láta hug falla þrátt fyrir þetta súra tap og þann herslumun sem vantaði upp á. Enn er góður möguleiki á að komast í undanúrslit mótsins. Óþreyttir menn bætast að öllum líkindum í hópinn fyrir næsta leik og létta undir með þeim mikið hefur mætt á í síðustu leikjum. Íslenska landsliðið kemur tvíeflt til baka eftir tapleiki. Nóg er eftir enn af mótinu.

Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 6, Sigvaldi Björn Guðjónsson 5, Ómar Ingi Magnússon 5, Elvar Ásgeirsson 4, Ýmir Örn Gíslason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 10, 33,3%.

Vikor Gísli Hallgrímsson stóð í marki Ísland í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -