Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna dróst á móti landsliði Ísraels í umspilsleikjum fyrir HM kvenna. Dregið var í Vínarborg í dag og voru þetta tvö síðustu liðin sem dregin voru saman. Fyrri viðureignin á að fara fram hér á landi 9. eða 10. apríl en sú síðari 12. eða 13. apríl ytra.
Ísland og Ísrael mættust í forkeppni fyrir HM kvenna 2023 á Ásvöllum í 5. og 6. nóvember 2022. Ísland vann báðar viðureignir örugglega, 34:26 og 33:24.
Eftirtaldar þjóðir voru dregnar saman:
Sviss – Slóvakía.
Ítalía – Rúmenía.
Pólland – Norður Makedónía.
Svíþjóð – Kósovó.
Slóvenía – Serbía.
Portúgal – Svartfjallaland.
Færeyjar – Litáen.
Tékkland – Úkraína.
Króatía – Spánn.
Austurríki – Tyrkland.
Ísland – Ísrael.
Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja tryggir sér þátttökurétt á HM 2025 sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi frá 27. nóvember til 14. desember.
A-landslið kvenna – fréttasíða.
Handbolti.is fylgdist í textalýsingu þegar dregið var í dag.