Forráðamenn norska úrvalsdeildarliðsins Drammen, sem Ísak Steinsson og Viktor Petersen Norberg leika m.a. með, eru í klemmu um þessar mundir eftir að ljóst var að liðið mætir ísraelska liðinu Holon Yuvalim Handball Club í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla.
Helst af öllu vilja stjórnendur félagsins og þjálfari sniðganga leikina tvo sem fram eiga að fara síðla í október vegna stríðsins sem geisar á Gasa og víðar á svæðinu um þessar mundir. Hinsvegar er það hægara sagt en gert.
Sekt og leikbann
Ragnhild Larsen-Nyhus Haaning formaður félagsins segir félagið helst vilja sniðganga ísraelska liðið. Vegna þess að hvorki Noregur né Handknattleikssamband Evrópu hindra samskipti Noregs og Ísraels á íþróttsviðinu né öðrum standi félagið frammi fyrir þungri refsingu neiti það að mæta ísraelska liðinu.
Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hótar sekt upp á 500 þúsund norskra króna, jafnvirði 6,5 milljóna íslenskra. Slík upphæð er ekki hirt upp af götum Drammen og geti riðið félaginu á slig fjárhagslega. Auk sektar yrði Drammen dæmt í nokkurra ára bann frá keppni á Evrópumótum félagsliða.
Eini kosturinn í stöðunni
Kristian Kjelling þjálfari Drammen segir félagsmenn tilneydda að bíta í eplið eldsúra og mæta ísraelska liðinu hvað sem hver segir. Sjálfur fordæmir hann framferði Ísraelsmanna í stríðinu sem stendur yfir og vildi helst af öllum komast hjá að sækja Ísrael heim og leika gegn liði frá landinu.
Fyrri leikur Drammen og Holon Yuvalim Handball Club á að fara fram í Drammen 19. eða 20. október og síðari viðureignin í Ísrael viku síðar.