Tveir íslenskir handknattleiksmenn eru í liði lokaumferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem lauk á sunnudaginn. Annarsvegar Bjarki Már Elísson vinstri hornamaður hjá Lemgo og hinsvegar Viggó Kristjánsson, örvhenta skyttan í herbúðum Stuttgart.
Bjarki Már fór á kostum á heimavelli á sunnudaginn þegar Lemgo vann Magdeburg, 32:27. Hann skorað 15 mörk í 16 skotum. Fimm marka sinna skoraði Bjarki úr vítaköstum.
Viggó skoraði 9 mörk í 13 skotum fyrir Stuttgart í jafntefli við MT Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með, 26:26. Tvö marka sinna skoraði Viggó úr vítaköstum. Einnig átti hann fjórar stoðsendingar.
Viggó var fjórum sinnum í liði umferðarinnar á leiktíðinni og er nú einn þeirra sem koma til greina í kjöri sjónvarpsstöðvarinnar Sky á leikmanni ársins í deildinni. Sky á réttinn á sýningum frá leikjum þýsku 1. deildarinnar í Þýskalalandi.