Arnar Birkir Hálfdánsson, Sveinbjörn Pétursson og samherjar í EHV Aue settu stórt strik í reikninginn hjá lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach í gær er þeir fyrrnefndu unnu viðureign liðanna í þýsku 2. deildinni í handknattleik, 29:26.
Gummersbach er þar með fimm stigum á eftir N-Lübbecke í þriðja sæti deildarinnar en liðið á þrjá leiki eftir en Lübbecke tvo. Þrjú lið fara upp úr deildinni en HSV Hamburg er efst með 54 stig eins og Lübbecke en á þrjá leiki eftir og stendur vel að vígi. Stöðuna í deildinni er að finna neðst í þessari grein.
Sveinbjörn átti stórleik í marki Aue sem færðist upp í fjórða sæti deildarinnar með þessum sigri. Sveinbjörn stóð í marki liðsins í um 40 mínútur og varði 14 skot sem gerir um 48% hlutfallsmarkvörslu. Segja má að Sveinbjörn hafi farið hamförum í markinu. Arnar Birkir skoraði þrjú mörk í átta skotum en átti fimm stoðsendingar.
Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði úr báðum markskotum sínum í leiknum. Hann var einnig fastur fyrir í vörn Gummersbach og varði m.a. þrjú skot.
Aron Rafn Eðvarðsson náði sér ekki á flug í marki Bietigheim þegar liðið tapaði fyrir Eisenach á heimavelli, 35:32. Hann stóð í markinu í 45 mínútur og varði fimm skot sem gerir 18% hlufallsmarkvarsla.
Staðan: