Dregið verður í forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik á morgun. Saman verða dregin tíu lið sem reyna munu með sér heima og að heiman í lok ágúst og í byrjun september. Meðal liðanna 10 eru tvö sem sem tengjast íslenskum handknattleiksmönnum og þjálfurum.
Annað liðið er Rhein-Neckar Löwen sem Valsmennirnir Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason leika með. Hitt er Hannover-Burgdorf þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari. Hannover-Burgdorf er með í undankeppni Evrópudeildar í fyrsta sinn.
Löwen í efri flokki
Rhein-Neckar Löwen verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í forkeppnina í fyrramálið. Einnig verða ABC de Braga (Portúgal), BM Granollers (Spáni), Pfadi Winterhur (Sviss) og Ystads IF HF (Svíþjóð) í efri flokknum.
Gegn liðunum í efri flokknum verða dregin eftirtalin fimm lið: HC Vardar 1961 (N-Makedóníu), RK Trimo Trebnje (Slóveníu), CSM Constanta (Rúmeníu), Aguas Santas Milaneza (Portúgal) og Hannover-Burgdorf (Þýskalandi).
Fimm Íslendingalið bætast við
Fimm lið sem íslenskir handknattleiksmenn leika með í vetur komast beint í riðlakeppnina: Franska liðið Nantes með Viktor Gísla Hallgrímsson markvörð innanborð, Sporting CP frá Portúgal sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með, Kadetten Schaffhausen frá Sviss sem Óðinn Þór Ríkharðsson er leikmaður með, þýska liðið Flensburg sem Teitur Örn Einarsson leikur með og loks Sport Lisboa e Benfica frá Portúgal sem Stiven Tobar Valenica gekk til liðs við í sumar.
Með öðru sniði
Alls sitja 27 lið hjá og komast þar af leiðandi í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem verður með öðru sniði en á síðasta tímabili þegar Valur var með. Á komandi leiktíð verða 32 lið í riðlakeppninni í stað 24. Þau verða dregið í átta riðla. Fjögur í hvern. Þótt forkeppnin fari ekki fram fyrr en í lok ágúst verður dregið í riðla á föstudaginn.
Riðlakeppnin verður styttri en á síðasta vetri. Aðeins verða sex umferðir í stað tíu í vetur sem leið og verður riðlakeppninni lokið snemma í desember. Sextán liða úrslit taka við í mars og apríl. Átta liða úrslit eru áformuð í lok apríl.
Úrslitahelgin með fjórum liðum sem eftir standa fer fram í lok maí.